Söngfélag eða kór starfaði á Hofsósi um líklega þriggja áratuga skeið á fyrri hluta tuttugustu aldar, ekki liggur fyrir hvort það bar eitthvert nafn en hér er það kallað Söngfélag Hofsóss.
Söngfélag Hofsóss var stofnað 1909 og var Páll Erlendsson bóndi á Þrastarhóli að stjórnandi þess alla tíð en hann fluttist til Siglufjarðar árið 1940 og hélt þar söngstarfi bæjarins á lofti einnig. Söngfélagið á Hofsósi sem var blandaður kór mun hafa starfað nokkuð samfleytt, komið fram á tónleikum og tekið þátt í messum og öðrum kirkjulegum athöfnum. Stærsta verkefni kórsins var biskupsvígsla á Hólum í Hjaltadal en hann hafði orðið að kirkjukór Hofskirkju á Hofsósi þegar Páll gerðist organisti þar. Karlaraddirnar í kórnum skipuðu karlakórinn Þröst sem starfaði samhliða því á árunum 1916 til 40 en þá flutti Páll úr hreppnum og hættu kórarnir tveir í kjölfarið þegar hans naut ekki lengur við.