Söngfélag Hreppamanna (1960-69)

Söngfélag Hreppamanna á landsmóti á Laugarvatni 1965

Söngfélag Hreppamanna var öflugur blandaður kór sem starfaði á árunum 1960 til 69 undir styrkri stjórn Sigurðar Ágústssonar frá Birtingarholti, kórinn var hlekkur í röð kóra sem störfuðu í uppsveitum Árnessýslu en Sigurður kom að stjórn nokkurra þeirra.

Allan sjötta áratuginn hafði svokallaður Flúðakór starfað undir stjórn Sigurðar í Hrunamannahreppi, sá kór var lítill blandaður kór með um tíu meðlimi og þegar Sigurður stofnaði hið nýja Söngfélag Hreppamanna gekk Flúðakórinn inn í þann nýja kór en uppistaðan í honum var kominn úr Hrunamanna- og Gnúpverjahreppi. Kórinn innihélt um þrjátíu og fimm meðlimi sem flestir voru í yngri kantinum, og varð hann fljótlega þekktur fyrir góðan söng og öflugt kórastarf.

Söngfélag Hreppamanna 1967

Með reglulegu tónleikahaldi skóp Söngfélag Hreppamanna sér gott orðspor en fastur liður í sögu hans voru vortónleikar haldnir í félagsheimilinu á Flúðum sem ætíð voru fjölsóttir af Hreppamönnum og Gnúpverjum en einnig fór kórinn í tónleikaferðir um Suðurlands, og eitt sinn til Reykjavíkur en hann söng þá í Gamla bíói. Sumarið 1965 söng kórinn fyrir um tuttugu þúsund áhorfendur í blíðskaparveðri á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni, þá söng kórinn eitt sinn einnig í útvarpssal. Guðmundur Guðjónsson og Ásthildur Sigurðardóttir sungu oft einsöng með kórnum á tónleikum og Skúli Halldórsson var yfirleitt undirleikari hans. Kórinn var aðili að Landsambandi blandaðra kóra.

Söngfélag Hreppamanna starfaði til vorsins 1969 en hætti þá störfum, Flúðakórinn (hinn síðari) var síðar stofnaður upp úr kórnum.