Söngfélag Stóra-Núpskirkju (1954-)

Söngfélag Stóra-Núpssóknar

Söngfélag Stóra-Núpskirkju (Kirkjukór Stóra-Núpskirkju) er um margt merkilegur kór en hann hefur starfað samfellt frá árinu 1954.

Söngfélag Stóra-Núpskirkju var stofnað haustið 1954 og var alla tíð hugsað sem blandaður kirkjukór við Stóra-Núpssókn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Það var Kjartan Jóhannesson organisti við kirkjuna sem stofnaði kórinn sem strax hafði að geyma tuttugu og átta söngmeðlimi en fyrsti stjórnandi söngfélagsins var Steinþór Gestsson (síðar alþingismaður) sem þá var þekktur sem einn fyrrum meðlima MA-kvartettsins. Steinþór var ekki lengi stjórnandi kórsins en Kjartan organisti átti eftir að vera við stjórnvölinn fram til 1970 en hann hafði verið organisti við kirkjuna frá því um 1930 og reyndar einnig nokkru fyrr. Kjartan var að vísu á síðari hluta sjöunda áratugsins bundinn við störf fyrir Kirkjukórasamband Íslands og þegar hans naut ekki við leystu þeir Sigurður Ágústsson í Birtingarholti og Erlendur Jóhannesson hann af hólmi og sá síðarnefndi einnig sem organisti. Um það leyti var Söngfélag Hreppamanna reyndar aðalkórinn í sveitinni og fór því kannski minna fyrir söngfélaginu við Stóra-Núpskirkju en ella hefði orðið.

Þegar Kjartans naut ekki lengur við kom Steindór Zophaníasson til sögunnar sem organisti og kórstjórnandi við kirkjuna árið 1971 og gegndi þeirri stöðu allt til 1992 en hann hafði einmitt numið orgelleik af Kjartani, svo virðist sem Steinþór Gestsson hafi einnig lítillega komið við sögu kórsins aftur sem og Loftur S. Loftsson en það hefur þá væntanlega verið tímabundin afleysing. Það var svo Þorbjörg Jóhannsdóttir sem tók við af Steindóri og hún hefur stjórnað Söngfélagi Stóra-Núpskirkju síðan.

Kórinn sem í dag er einnig kallaður Kirkjukór Stóra-Núpskirkju hefur oftsinnis verið í söng- og samstarfi við Kirkjukór Ólafsvalla enda hafa kórarnir tveir oft komið fram saman á tónleikum og við messuhald en Þorbjörg stjórnar báðum kórunum, þeir starfa þó sem sjálfstæðar einingar einnig. Þeir hafa gefið út eina plötu í þessu samstarfi sínu, hún kom út haustið 2015 og ber titilinn Ó, syng þínum Drottni: Sálmar séra Valdimars Briem, sú plata hefur m.a. að geyma sálmalög Valdimars eins og titillinn bendir til – hann var prestur við Stóra-Núpskirkju og er þekkt sálmaskáld.

Söngfélag Stóra-Núpskirkju starfar því enn í dag og lifir af því er virðist ágætu lífi.

Efni á plötum