Flúðakórinn [2] (1973-83)

Flúðakórinn

Flúðakórinn hinn síðari starfaði í áratug á árunum 1973 til 83 undir stjórn Sigurðar Ágústssonar í Birtingarholti.

Þetta var í grunninn sami kór og starfað hafði í Hrunamannahreppi um tveimur áratugum áður, sá kór hafði runnið inn í Söngfélag Hreppamanna 1960 en sá kór var nú hættur og söngþyrst fólk í hreppnum fýsti í kórsöng og því var Flúðakórinn endurreistur.

Stórt verkefni kórsins beið jafnframt en það var afmælishátíð í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 en slíkar hátíðir voru haldnar í öllum sýslum landsins. Sigurður stjórnandi hafði samið kantötu sem var meðal þess sem flytja skyldi á hátíðinni í Árnessýslu, og þess vegna var myndaður kór sem Flúðakórinn var hluti af, Þjóðhátíðarkór Árnesinga sem taldi á annað hundrað kórmeðlima úr nokkrum kórum í sýslunni og sá Sigurður jafnframt um að æfa og stjórna kórnum.

Flúðakórinn var öflugur meðan hann starfaði, og árið 1979 hleypti hann heimdraganum og hélt til Noregs í tónleikaferð, var þar að endurgjalda heimsókn Norðmanna sem hingað höfðu komið í sama tilgangi áður.

Kórinn starfaði til ársins 1983 þegar hann var lagður niður en kom saman aftur við lok aldar, 1999 og söng þá á tónleikum ásamt fleiri kórum, sem blásið var til í tilefni af því að nýr flygill hafði verið keyptur í félagsheimilið á Flúðum, það var Edit Molnár sem þá stjórnaði kórnum.