Flúðakórinn [1] (1950-60)

Flúðakórinn hinn fyrri var einn af fjölmörgum kórum sem Sigurður Ágústsson í Birtingarholti í Hrunamannahreppi hafði með að gera en hann stofnaði kórinn árið 1950. Uppistaðan í kórnum sem var blandaður kór, var fólk úr Hrunamannahreppi.

Um tíu manns skipuðu Flúðakórinn sem hlaut nafn sitt af því að kóræfingar fóru fram á Flúðum, hann þótti nokkuð góður þótt lítill væri og afrekaði það m.a. að syngja í Ríkisútvarpinu og fékk þar góðar móttökur. Kórinn starfaði í tíu ár undir stjórn Sigurðar sem jafnframt var undirleikari hans – til ársins 1960 en þá gekk kórinn inn í nýstofnað Söngfélag Hreppamanna og var þ.a.l. lagður niður í kjölfarið.