Söngfélag Húsvíkinga (1881-92)

Fáar heimildir eru um söngfélag eða -félög sem störfuðu á Húsavík á síðari hluta 19. aldar en það/þau störfuðu líklega frá því um 1881 og til 1892, nokkuð samfleytt af því er virðist. Ekki er vitað til að söngfélag/félög þessi hafi borið nafn en hér eru þau nefnd Söngfélag Húsvíkinga.

Það mun hafa verið Magnús Einarsson sem hélt utan um sönginn í upphafi en þegar hann fluttist á brott tóku þeir Jón Ármann Jakobsson og síðar Stefán Guðjohnsen við stjórninni, þeir voru allir organistar við kirkjuna á Húsavík og námu þeir Jón Ármann og Stefán orgelleik af Magnúsi. Ekkert bendir þó til að söngfélagið hafi verið kirkjukór Húsavíkurkirkju en þeir hafi jafnframt stjórnað þeim kór samhliða þessu félagi.