Söngfélag var starfandi á Oddeyrinni á Akureyri á síðari hluta 19. aldar uns það virðist hafa sameinast Söngflokki Akureyrarbúa (og jafnvel fleiri söngfélögum) haustið 1888 og hlaut þá nafnið Söngfélagið Gígjan eða bara Gígjan. Magnús Einarsson hafði leiðbeint söngfólki í báðum söngfélögunum en ekki liggur þó fyrir hversu lengi.
Söngfélagið á Oddeyri gæti hafa verið starfandi sumarið 1874 þegar þjóðhátíð var haldin um allt land í tilefni af þúsund ára landnámsafmælinu en Magnús flutti til Akureyrar ári síðar. Hann virðist hafa haldið utan um sönginn allt þar til Gígjan var stofnuð, að undanskildum árunum frá 1881 til 86 þegar hann bjó á Húsavík. Ekki finnast upplýsingar um hvort einhver annar stjórnaði söngstarfinu á þeim árum eða hvort félagið lá hreinlega niðri þann tíma.