Stúdentakórinn [2] (1964-73)

Stúdentakórinn 1967

Stúdentakórinn (hinn síðari) var formlega settur á laggirnar í febrúar 1964 en þá höfðu í raun margir kórar verið starfandi innan háskólasamfélagsins allt frá árinu 1925 og með hléum. Með tilkomu nýs kórs sem nyti fastra fjárframlaga frá Háskóla Íslands að norrænni fyrirmynd og fengi þær skyldur að syngja við útskriftir, á fullveldishátíð skólans og á Háskólahátíð, yrði rekstur hans tryggður, og að auki leyfðu lög kórsins að útskrifaðir stúdentar fengju að syngja áfram með kórnum – væri skipaður háskólaborgurum eins og það var orðað, ólíkt því sem var hjá fyrri kórunum. Kórinn var þó áfram karlakór líkt og þeir fyrri en þá þótti greinilega ekki við hæfi hérlendis að blandaður kór starfaði við háskólann þótt slíkt tíðkaðist orðið alls staðar í nágrannalöndunum. Fyrri kórar innan skólans höfðu langtímum saman verið á mörkum þess að vera starfandi sökum mannfæðar og hugmyndin um að breyta fyrirkomulaginu að þessari norrænu fyrirmynd hafði fyrst verið sett fram í kringum miðjan fimmta áratuginn en kom ekki til framkvæmda fyrr en þarna, og í tilefni af stofnun hins nýja kórs gekk hann í leiðinni í samnorrænt samstarf með öðrum sambærilegum kórum.

Sigurður Markússon var fyrsti stjórnandi hins nýja Stúdentakórs en um haustið (1964) þegar hann hvarf til framhaldsnáms erlendis tók Jón Þórarinsson við því starfi og gegndi því til 1968. Stúdentakórinn varð á þessum árum loksins gríðarlega öflugur karlakór og skipuðu hann yfirleitt á bilinu fjörutíu til fimmtíu söngmenn, kórinn hafði sínar skyldur innan háskólans sem fyrr er nefnt en söng einnig utan háskólasamfélagsins, söng m.a. í skemmtistaðnum Sigtúni við Austurvöll og vorið 1966 hélt kórinn í fyrsta sinn opinbera tónleika sem haldnir voru í Gamla bíói, þar sem hann fékk góðar viðtökur. Í kjölfarið og í tengslum við hið samnorræna samstarf við aðra kóra á Norðurlöndunum var Stúdentakórnum boðið til Finnland þangað sem hann fór vorið 1967, þar söng hann á kórasamkomu en hélt einnig sjálfstæða tónleika auk þess að syngja í útvarpi og sjónvarpi í Svíþjóð og Finnlandi. Sem vonlegt var var þessari för gerð góð skil í fjölmiðlum hér heima en kórinn var í ferðinni skipaður þrjátíu og sex söngmönnum, um helmingur þeirra voru stúdentar um tvítugt en hinn helmingurinn háskólamenn á ýmsum aldri – sá elsti 72 ára.

Í kjölfar Finnlandsferðarinnar fór Stúdentakórinn í hljóðupptökur og um haustið kom út plata á vegum Fálkans sem bar nafnið Stúdentakórinn / The Icelandic Academic Choir en uppistaðan á henni voru stúdentasöngvar, prógramm sem kórinn hafði sungið í Finnlandsferðinni. Þrír kórfélaganna sungu einsöng á plötunni, reyndar eins og þeir höfðu gert á tónleikum einnig en það voru Örlygur Richter, Heimir Pálsson og Sigmundur R. Helgason.

Atli Heimir Sveinsson tók við kórstjórninni af Jóni Þórarinssyni árið 1968 og kórinn var áfram mjög virkur, og fór m.a. í söngferðalag til Akureyrar 1970 og um Suðurland 1971, einnig komu þá upp hugmyndir um söngferðalag um Norðurlöndin og var þeirri hugmynd haldið nokkuð á lofti næstu árin en svo virðist sem kórinn hafi ekki farið þá ferð. Árið 1972 tók Herbert H. Ágústsson við stjórn Stúdentakórsins og stjórnaði honum um veturinn 1972-73.

Blikur voru þá á lofti og í takti við breyttan tíðaranda urðu kröfur um blandaðan kór innan háskólans hærri, og haustið 1972 var slíkur kór settur á laggirnar. Sá kór var ekki fjölmennur eða burðugur í blábyrjun en óx ásmegin og vorið 1973 var Rut L. Magnússon ráðin söngstjóri hins nýja kórs sem síðan hlaut nafnið Háskólakórinn. Hvort sem það var beinlínis stofnun hins nýja kórs eða eitthvað annað þá lagðist starf Stúdentakórsins niður vorið 1973 þrátt fyrir blómleg ár þar á undan og þar með lauk sögu hans nokkuð snögglega. Háskólakórinn hefur síðan þá verið hinn eiginlegi kór Háskóla Íslands og haldið uppi merkjum söngstarfs þar.

Efni á plötum