Stúlkna- og barnakórar Guðrúnar Þorsteinsdóttur (1957-62)

Um og í kringum 1960 stjórnaði Guðrún Þorsteinsdóttir söngkona og söngkennari nokkrum barnakórum í Reykjavík.

Guðrún hafði kennt bæði við Austurbæjar- og Laugarnesskóla og myndað barnakóra við skólana og þeirra á meðal voru einnig stúlknakórar sem sungu víða um höfuðborgarsvæðið í þessum tíma, þá virðist sem hún hafi einnig stjórnað stúlknakór við Háteigskirkju þannig að kórar hennar voru þó nokkrir. Stundum voru þessir kórar kenndir við hana í auglýsingum og fréttum án þess að nokkurs væri getið hvaða skóla eða söfnuði viðkomandi kórar tilheyrðu, þá voru þeir ýmist kallaðir stúlknakórar, telpnakórar, stúlknasöngflokkar eða barnakórar. Sumir þessara kóra komu t.a.m. fram í dagskrá útvarpsins og sungu á margs konar skemmtunum og kirkjutengdum samkomum.

Guðrún hafði þá einnig stjórnað Barnakór Hlíðaskóla og um 1962 helgaði hún sig þeim kór einvörðungu og hinir og þessir stúlknakórar heyrðu þá í kjölfarið sögunni til.