Rennireið (1998)

Rennireið (2)

Rennireið

Hljómsveitin Rennireið markaði upphaf ferils þriggja tónlistarmanna, vakti athygli fyrir ungan aldur sveitarmeðlima og var kjörin efnilegasta sveit Músíktilraunanna, allt á þeim stutta tíma sem hún starfaði.

Rennireið var skipuð þremenningunum Ragnari Sólberg Rafnssyni gítar-, bassa- og trommuleikara, Frosta Erni Gunnarssyni söngvara og Matthíasi Arnalds hljómborðsleikara, sem allir voru komnir af listafólki en Ragnar var sonur Rafns Jónssonar (Rabba), Frosti Örn fóstursonur Jóns Gnarr og Matthías sonur Berljótar Arnalds leik- og söngkonu.

Þannig skipað keppti tríóið í Músíktilraunum vorið 1998, þá allir á tólfta ári og varð þar með sú hljómsveit sem hafði á að skipa yngstu meðlimunum í sögu tilraunanna. Rennireið sló í gegn í Músíktilraununum og komst í úrslit þar sem hún var kjörin efnilegasta hljómsveit tilraunanna.

Sveitin starfaði reyndar ekki lengi eftir tilraunirnar þar sem Ragnar vann að sólóplötu sinni sem kom út um haustið, en sveitin átti þó lag sem kom út á safnplötunni Flugan#1 þá um sumarið. Framlag þeirra á safnplötunni fékk ágætis viðtökur í plötudómum um hana, sem birtust í tímaritinu Fókus og Morgunblaðinu.

Þó Rennireið yrði ekki langlíf sveit áttu þeir félagar eftir að birtast síðar í ýmsum hljómsveitum síðar, Ragnar sem sólólistamaður og meðlimur sveita eins og Halim, Sign og fleiri, Matthías í hljómsveitunum bob og Kismet, og Frosti í hljómsveitinni Jezebel.