Islandica (1987-2005)

islandica1

Islandica

Islandica var hljómsveit sem sérhæfði sig í flutningi á íslenskri alþýðu- og þjóðlagatónlist í bland við frumsamið efni. Sveitin sendi frá sér nokkrar plötur sem hafa selst gríðarlega vel en þær voru og eru enn vinsælar meðal erlendra ferðamanna.

Sveitin var stofnuð 1987 og var kjarni hennar hjónin Gísli Helgason flautuleikari og Herdís Hallvarðsdóttir bassaleikari, Guðmundur Benediktsson gítar- og hljómborðsleikari og Ingi Gunnar Jóhannsson gítarleikari, öll fjórmenninganna sungu. Þau höfðu áður verið í Vísnavinum og Hálfu í hvoru svo dæmi séu tekin.

Eggert Pálsson hljómborðs- mandólínleikari lék með Islandicu um tíma meðan Guðmundur bjó erlendis og Jón Ingólfsson kom einnig eitthvað við sögu sveitarinnar. Ásgeir Óskarsson trommuleikari, Þórir Baldursson hljómborðsleikari og fleiri voru Islandicu ennfremur innan handar á stöku tónleikum og á plötum sveitarinnar.

Islandica fór víða til tónleikahalds og lék á yfir tvö hundruð tónleikum erlendis til að kynna íslenska þjóðlagahefð við góðar undirtektir, t.d. fóru þau um Norðurlöndin á vegum menningar- og fræðslusambands alþýðu árið 1989, og síðan utan margsinnis eftir það.

Fyrsta plata Islandicu, Rammíslensk: folk & fantasy, kom út 1990 á vegum eigin útgáfufyrirtækis sem hlaut nafnið Fimmund en það var stofnað þegar ekkert íslenskt útgáfufyrirtæki hafði áhuga á að gefa efnið út. Á plötunni var að finna ágætt úrval fjölbreyttra þjóðlaga í bland við frumsamið efni, þar var m.a. lagið Tröllaþvaður eftir Herdísi en það hafði komið nokkrum árum fyrr út með hljómsveitinni Grýlunum. Annað þekkt lag, Kvöldsigling eftir Gísla, var aukalag á geislaplötuútgáfu plötunnar en á þeim tíma voru titlar gefnir út á vínyl-, geislaplötu- og snælduformi.

Platan, sem var tileinkuð minningu sr. Bjarna Þorsteinssonar þjóðlagasafnara, seldist strax mjög vel meðal erlendra ferðamanna hérlendis og varð til þess að hún var endurútgefin fyrir breskan og þýskan markað undir titlinum Songs & dances from Iceland / Lieder & Tänze aus Island. Hún hlaut ennfremur ágætar viðtökur gagnrýnenda, mjög góða dóma í Degi og tímaritinu Þjóðlífi og þokkalega í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og DV.

islandica

Islandica á tónleikum

Reyndar var talað um það í fjölmiðlum 1989, ári áður er fyrrgreind plata kom út, að Islandica hefði verið með plötu meðferðis í tónleikaferð erlendis, titill þeirrar plötu var Folk songs and fantasies / Þjóðlög fyrr og nú, en engar frekari upplýsingar er að finna um þá útgáfu.

Islandica var upptekin á næstu árum, hélt áfram tónleikahaldi einkum á erlendum vettvangi og því liðu fimm ár þar til næsta plata leit dagsins ljós, það var Saga songs: Icelandic folk söngs: Römm er sú taug, og hún að geyma lagaval svipað því sem var á fyrri plötunni. Eins og sú fyrri seldist þessi nýja plata prýðilega og gerir enn, hún hlaut aukinheldur ágæta dóma í DV og mjög góða í Morgunblaðinu.

Og þriðja platan kom út ári síðar (1996) en hún var í nokkru frábrugðin fyrri plötunum tveimur af því leyti að hún var með ósungnu efni (instrumental), hins vegar höfðu flest lögin á henni komið út á fyrri plötunum tveimur, þá sungin.

Eftir 1997 fór minna fyrir Islandicu, sveitin lék stopulla og meðlimir hennar voru í öðrum verkefnum. Þau birtust þó öðru hverju og spiluðu opinberlega bæði hér heima og erlendis en sem fyrr segir lék sveitin í um tvö hundruð skipti á erlendum vettvangi þann tíma er hún starfaði.

Árið 2000 kom út safnplata með Islandicu, Favourite folk songs of Iceland: Best of Islandica, úrval íslenskra alþýðulaga, á henni var einnig að finna tvö áður óútgefin lög.

Islandica virðist hafa leikið síðast opinberlega árið 2005 en þó er ekki loku fyrir það skotið að sveitin sé enn starfandi.

Efni á plötum