Ég er lítið lasið skrímsli

Ég er lítið lasið skrímsli
(Lag / texti: Olga Guðrún Árnadóttir)

Ég er lítið lasið skrímsli
og mig langar ekkert út.
Hornin mín eru völt og veik
og mig vantar snýtuklút.

Ég er orðinn upplitaður,
ég er orðinn voða sljór.
Ég held ég hringi í lækni
því að halinn er svo mjór.

viðlag
Skrímsli eru eins og krakkar,
ósköp vesæl ef þau næla sér í kvef.
Hver er hræddur við skrímsli
sem er hóstandi’ og með stíflað nef?

Augun mín þau standa á stilkum,
annað starir út í vegg
og ég held að aldrei aftur
muni á mér vaxa skegg

Ó mamma, elsku mamma,
nú ég meðal verð að fá.
Glás af iðandi ormum,
annars kemst ég ekki’ á stjá.

viðlag

[á plötunni Olga Guðrún Árnadóttir – Babbidí-bú]