Það breytist ekki í bráð

Það breytist ekki í bráð
(Lag / texti: Björgvin Halldórsson / Stefán Hilmarsson)

Það er ætíð margt sem miður fer,
maður er nú bara mennskur og fylginn sér.
Og gerir á tíðum glappaskot víst,
gleymir því stundum um hvað lífið snýst.

Hann varir fráleitt alltaf friðurinn,
flestum hleypur annað slagið kapp í kinn.
En reiðin að lokum þó rennur af oss,
það rætist úr öllu, síðan kemur koss.

Þannig var það og er
á hnettinum hér.
Við erum hvort öðru háð,
það breytist ekki.

Það vilja margir eiga betra líf,
margur gumi á sér drauma um fagurt víf.
Þó lausnir menn finni, þeir leita nú samt
en lygilega oft býsna langt yfir skammt.

Þó þeir auglýsi og auglýsi,
þá er ekkert nýtt undir sólinni.
Og þrátt fyrir líkur og langtímaspár
þá líður samt tíminn ár eftir ár.

Þannig var það og er
á hnettinum hér.
Við erum hvort öðru háð,
það breytist ekki í bráð.

Á degi hverjum drífur fólk sig á kreik,
eins dæmist það hér daglega úr leik.
Þannig er gangurinn.
Ófáir eyða sínum tíma í hjóm
og enda í sút – berjandi lóm.
Það er nú staðreyndin,
blákaldur veruleikinn.

Já, lífsins tangó er snúinn dans,
þó sumir stíga’ hann oft á tíðum með elegans.
En þess ber að geta’ að það dansar ei neinn
til lengdar af viti óstuddur og einn.

Þannig var það og er.

Þannig var það og er
í höfðinu á mér.
Við erum hvort öðru háð,
það breytist ekki í bráð.

[á plötunni Björgvin Halldórsson – Eftirlýstur]