Selma Hrönn Maríudóttir (1969-)

selma-hronn-mariudottir

Selma Hrönn ung að árum

Nafn Selmu Hrannar Maríudóttur kemur víða við sögu íslenskrar menningarsögu, þótt hún sé í seinni tíð þekktust fyrir margverðlaunaðar barnabækur og vefgerð tengt því, á hún að baki tónlistarferil sem telur eina sólóplötu og aðra dúettaplötu auk þess sem hún hefur leikið inn á og átt efni á nokkrum plötum.

Selma Hrönn (f. 1969) á ekki langt að sækja tónlistargáfuna því hún er dóttir Gylfa Ægissonar og er þ.a.l. náskyld tónlistarmönnum eins og Lýði Ægissyni og Þorsteini Lýðssyni sem gefið hafa út plötur einnig.

Hún er fædd á Akureyri en ólst að mestu upp í Vestmannaeyjum hjá Lýði föðurbróður sínum. Hún lærði rafeindavirkjun og síðar forritun og vefstjórnun og hefur síðustu áratugina starfað við vefsmíði, nú síðast í Sandgerði þar sem hún hefur búið með fjölskyldu sinni.

Selma Hrönn lærði ung á harmonikku og segja má að eiginlegur tónlistarferill hennar hafi hafist þegar hún lék á nikku inn á plötu föður síns, Sumarplötu sjómannsins árið 1985 en hún var þá einungis fimmtán ára gömul. Í kjölfarið lék hún lítið hlutverk og söng á plötunni um Valla og snæálfana (1986), og tveimur árum síðar kom hún við sögu sem lagahöfundur á plötu Lýðs frænda síns, Lómurinn lævís.

Þar kom að árið 1990 að Selma ákvað að gefa út plötu með frumsömdu efni en hún var þá á tuttugasta og fyrsta aldursári. Platan hlaut heitið Einkamál og fékk hún sér til fulltingis fjöldann allan af þekktu tónlistarfólki til að syngja og leika inn á plötuna, sem hún gaf sjálf út á vínyl, geislaplötu og snældu undir útgáfumerkinu Tónaflóð. Upptökur fóru fram í Stúdíó Stef undir stjórn Hallgríms K. Hilmarssonar.

selma-hronn-mariudottir1

Selma Hrönn Maríudóttir

Fremur lítið fór fyrir útgáfu plötunnar og hlaut hún ekki mikla athygli en tveir dómar birtust um hana, fremur slakur í DV en sæmilegur í Morgunblaðinu. Platan seldist þó í ríflega tólf hundruð eintökum.

Þremur árum síðar kom út jólasnælda með Selmu Hrönn þar sem hún lék á harmonikku ásamt Gylfa föður sínum, sú snælda hét Í jólaskapi og er afar sjaldgæft að sjá eintak af henni í dag enda var hún gefin út í litlu upplagi.

Síðan þá hefur Selma Hrönn lítið verið viðloðandi íslenska tónlistarsögu. Hún hefur þó endurútgefið nokkur laga sinna í nýjum útsetningum og með enskum textum á vefsetri sínu og hlotið ágætar viðtökur erlendra gagnrýnenda.

Efni á plötum