Selma Kaldalóns (1919-84)

Selma Kaldalóns

Selma Kaldalóns er kannski ekki á allra vitorði eins og faðir hennar, Sigvaldi Kaldalóns en hún var mikilvirt tónskáld sem reyndar lét ekki almennilega að sér kveða fyrr en hún var komin fram yfir miðjan aldur.

Selma Kaldalóns (Cecilia María Kaldalóns) fæddist haustið 1919 á bænum Ármúla við Ísafjarðardjúp en þar var faðir hennar héraðlæknir. Hún naut einhverrar tónlistarlegrar leiðsagnar, lærði lítillega á píanó en nam þó kannski mest af föður sínum þegar hún sat við hlið hans við píanóið ung að aldri og reyndi að herma eftir honum.

Fátt var það sem benti til að Selma myndi helga sig tónlistinni, hún giftist Jóni Gunnlaugssyni lækni og þau bjuggu víða um land þar sem hann sinnti sínum læknisstörfum, fyrst á Reykhólum á Barðaströnd, þá á Selfossi og síðan á Seltjarnarnesi þar sem þau bjuggu til æviloka. Það mun hafa verið á Reykhólum sem hún samdi sitt fyrsta lag en henni var alla tíð tamast að semja lög við ljóð annarra, eiginmaður hennar samdi m.a. ljóð sem hun samdi lög við.

Þau hjón eignuðust alls níu börn og er það vafalaust ástæða þess að Selma sinnti ekki tónlistinni að marki fyrr en komið var á síðari hluta áttunda áratugarins, hún hafði reyndar sinnt organistastarfi á Reykhólum auk þess að stjórna kirkjukórnum á staðnum en að öðru leyti voru barneignir og -uppeldi fyrirferðamikil framan af ævi hennar.

Það var svo um eða eftir miðjan áttunda áratuginn að Selma fór að koma fram á tónleikum með Guðrúnu Tómasdóttur söngkonu þar sem þær fluttu lög Selmu, þær fóru m.a. vestur um haf og léku á hátíð Vestur-Íslendinga. Einnig sungu Elín Sigurvinsdóttir og Ingibjartur Bjarnason lög hennar við opinber tæki og í útvarpssal og sjálf var Selma farin að koma heilmikið fram sem undirleikari annarra.

Árið 1977 var svo komið að því að lög eftir Selmu voru hljóðrituð og gefin út en þá kom út platan Ingibjartur Bjarnason syngur íslensk lög, Selma lék þar einnig í nokkrum lögum undir söng Ingibjarts. Ári síðar (1978) kom svo út plata sem bar yfirskriftina Sönglög eftir Sigvalda og Selmu Kaldalóns en á henni söng Guðrún Tómasdóttir tólf lög Selmu og tíu lög föður hennar við undirleik hennar og Ólafs Vignis Albertssonar í útvarpssal. Það var Fálkinn sem gaf plötuna út og hún var svo endurútgefin af Íslenskum tónum árið 2009 þegar Selma hefði orðið níræð. Tveimur árum síðar (1980) átti hún lag einnig á plötu Samkórs Selfoss – Þú bærinn minn ungi.

Þar með var Selma komin á kortið sem tónskáld og sumarið 1984 kom út sönglagahefti með tuttugu og sjö lögum hennar, gefið út í minningu foreldra hennar. Þá um sumarið lék hún á tónleikum í Selfosskirkju, engan óraði þá fyrir því að það yrðu hennar síðustu tónleikar en í desember það sama ár datt hún illa í hálku og lést viku síðar á sjúkrahúsi, sextíu og fimm ára gömul.

Tveimur árum síðar (1986) gáfu Jón eftirlifandi eiginmaður hennar og börn þeirra út plötuna Má ég í fang þér færa: 24 sönglög eftir Selmu Kaldalóns en á þeirri plötu sungu ýmsir listamenn lög Selmu, þeirra á meðal voru Kristinn Sigmundsson, Elísabet F. Eiríksdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson auk áðurnefndra söngvara en undirleikarar voru þeir Ólafur Vignir Albertsson og Jónas Ingimundarson. Platan fékk góða dóma í DV og ágæta einnig í Morgunblaðinu og Tímanum, og þess má geta að myndskreytingin á plötuumslaginu var eftir Selmu en hún þótti liðtækur málari og hafði haldið sýningar á myndum sínum.

Minningu Selmu Kaldalóns hefur verið haldið á loftið með ýmsum hætti og hafa Seltirningar verið þar fremstir í flokki enda bjuggu þau hjónin þar lengstum, árið 2009 var t.d. sett á svið tónlistardagskrá um hana í tilefni af því að þá hefði hún átt níræðis afmæli og 2019 heiðraði Ríkisútvarpið minningu hennar með útvarpsþætti tengdum aldarafmæli hennar. Þá hefur Seltjarnarnesbær veitt ungum og efnilegum tónlistarnemum Kaldalónsskálina, sem nefnd er eftir Selmu.

Sem fyrr segir var platan Sönglög eftir Sigvalda og Selmu Kaldalóns endurútgefin árið 2009 en einnig hefur Ásgerður Júníusdóttir sungið lag eftir hana á plötunni Minn heimur og þinn (2002).

Efni á plötum