Undirtónar [fjölmiðill] (1996-2003)

Nokkrar forsíður Undirtóna

Undirtónar var tímarit sem gefið var út í kringum síðustu aldamót, það fjallaði að mestu um tónlist og var dreift ókeypis.

Blaðið var hugarfóstur þeirra Ísars Loga Arnarssonar og Snorra Jónssonar og var framan af unnið í samvinnu við Hitt húsið en það kom fyrst út haustið 1996. Ísar Logi var ritstjóri blaðsins en þeir Snorri voru aðalsprauturnar auk Ara S. Arnarssonar síðar, fjölmargir pennar komu þó að skrifum í blaðinu.

Undirtónar fór af stað sem tímarit um tónlist og var það í byrjun, síðar bættist við umfjöllun um tölvuleiki og annars konar afþreyingu og jaðarmenningu. Tónlistin var þó alltaf aðalþemað og tímaritið var öflugur málsvari fyrir neðanjarðartónlist, og reyndar stóð það fyrir ýmsum  tónlistartengdum uppákomum. T.d. stóðu Undirtónar fyrir tónleikaröðinni Stefnumót og í kjölfarið útgáfuröð þar sem samnefndar plötur komu út. Undirtónar komu jafnframt að kvikmyndinni Popp í Reykjavík, önnuðust tónlistarfréttir á sjónvarpsstöðinni Popptíví og komu að íslensku tónlistarlífi ennfremur með nýstárlegum hætti þegar þeir félagar buðu upp á smáskífur á mp-formi á vefsetri sínu.

Aðstandendur tímaritsins

Fyrstu tölublöð Undirtóna voru prentuð í litlu broti á glanspappír en frá og með haustmánuðum 1997 var blaðið prentað á dagblaðspappír og þess konar broti.

Upplagið var í upphafi um fimm þúsund eintök en þeim fjölgað jafnt og þétt og varð upplagið mest um tuttugu og fimm þúsund eintök í upphafi ársins 2000 en blaðið kom út allt til ársins haustsins 2003 þegar útgáfu þess lauk fremur skyndilega.