Takk (1984-87)

Dúettinn Takk

Söngdúettinn Takk er ekki sérlega þekkt nafn í dag en árið 1987 vakti hann nokkra athygli fyrir plötu sína sem hafði að geyma kristilegt popp.

Hjónin Halldór Lárusson og Árný Jóhannsdóttir höfðu verið saman í kristilega tónlistarhópnum Ungt fólk með hlutverk og hljómsveitinni 1. Kor 13 en byrjuðu að vinna popp saman árið 1984 undir nafninu Takk. Það var svo um tveimur og hálfu ári síðar sem þau gáfu út plötuna Mirrored image sem bandaríska útgáfufyrirtækið Fortress records bauðst til að gefa út með þeim eftir að hafa heyrt demó upptökur þeirra en útgáfan sérhæfði sig í kristilegri tónlist.

Á plötunni, sem tekin hafði verið upp haustið 1986, höfðu þau sér til aðstoðar Birgi Jón Birgisson sem samdi öll lög hennar auk þess að leika á gítar og annast forritun en einnig fengu þau til liðs við sig fjöldann allan af bandarískum hljóðfæraleikurum sem sumir hverjir voru nokkuð þekktir í bransanum. Halldór samdi megnið af textunum. Mirrored image hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu þegar hún kom út, og litlu skárri í DV.

Platan var bæði gefin út hér á Íslandi og erlendis (líklega bæði í Suður-Afríku og Bandaríkjunum) en upplagið var um fimmtán þúsund eintök. Einhverjar sögusagnir voru um fyrirhugaðar tónleikaferðir um Bandaríkin en staðfest er að dúettinn hélt tónleika í Suður-Afríku. Fyrir erlenda markaðinn höfðu þau Halldór og Árný tekið upp nöfnin Nik Larusson og Arny Johans.

Allur ágóði af sölu plötunnar hér heima rann til Krýsuvíkursamtakanna en sumarið 1987 fóru þau Halldór og Árný ásamt Birgi Jóhanni hringinn í kringum landið með hópi ungs hjólreiðafólks til að safna áheitum fyrir Krýsuvíkursamtökin, og vakti hópurinn nokkra athygli fyrir það. Að því loknu heyrðist lítið til Takk og svo virðist sem minna hafi orðið úr frama þeirra vestan hafs en vonir stóðu til.

Efni á plötum