Tennurnar hans afa (1988-95)

Tennurnar hans afa

Tennurnar hans afa (T.H.A.) vöktu nokkra athygli á sínum tíma með tveimur lögum, sveitin gaf út snældu sem er að öllum líkindum fyrsta rappplatan (-snældan) hérlendis.

Tennurnar hans afa var ekki eiginleg starfandi sveit heldur fremur samstarf þriggja félaga en þeir voru þó aldrei nema tveir í senn. Sögu þeirra má rekja aftur til vorsins 1988 en þá byrjuðu þeir Brjánn Guðjónsson og Þorsteinn Sævarsson að búa til tónlist í tölvu, síðar átti Bjarki Páll Jónsson einnig eftir að starfa með Brjáni en Þorsteinn var aldrei samtíða Bjarka. Brjánn var aðalmaðurinn, annaðist forritun, lék á gítar, söng og rappaði.

Dúóið vakti fyrst athygli árið 1989 þegar lagið La Barna hlaut spilun á útvarpsstöðinni Rót en eftir að fjölmargar kvartanir bárust vegna klámfengins texta lagsins var það bannað. Í kjölfarið spannst heilmikil umræða um tjáningarfrelsi og klám, og að lokum fékkst það spilað aftur á Rót. Myndband við lagið fékkst hins vegar aldrei birt á sjónvarpsstöðvunum af sömu ástæðu en það er þó hægt að sjá í dag á Youtube, auk nokkurra annarra laga sveitarinnar.

Árið 1991 sendu Tennurnar hans afa frá sér snældu í litlu upplagi (tvö hundruð eintökum) en á henni mátti heyra tíu lög sem flest voru frumsamin en einnig var þar að finna lagið Gwarligg, sem var þeirra útgáfa af laginu Walk on the wild side með Lou Reed. Snældan markar tímamót í íslenskri tónlistarsögu því þarna er um að ræða fyrstu útgáfu rapptónlistar hérlendis þótt að um hálfgert grín sé að ræða, það þarf vart að taka fram að snældan er sjaldséð í dag, nánast ófáanleg og gildi hennar eftir því. Hún bar titilinn Dömur mínar og herrar, látið eins og heima hjá ykkur.

Ári síðar (1992) átti sveitin lag (Kinky) í kvikmyndinni Veggfóður: erótísk ástarsaga, og fékk lagið nokkra spilun í útvarpi.

Tennurnar hans afa störfuðu til ársins 1995 en hefur unnið tónlist á allra síðustu árum, þar er hins vegar um annars konar tónlist að ræða en rapp.

Efni á plötum