Tríó Aukaatriði (1975)

Árið 1975 kom út tveggja laga plata á vegum Tals og tóna með hljómsveit sem bar heitið Tríó Aukaatriði frá Bíldudal. Engar heimildir er að finna um þessa sveit og er ekki einu sinni víst að hún hafi verið starfandi. Líklega voru þeir Hafliði Magnússon og Jörundur Garðarsson í sveitinni auk þess sem Ingvar Guðjónsson bassaleikari og Skúli Magnússon trommuleikari virðast hafa verið fengnir að láni úr hljómsveitinni Fjörkum.

Lögin tvö, Senjorinn og Ráðskonan mín rjóð og feit fengu ekki mikla athygli en hins vegar skelfilega dóma í Þjóðviljanum, en þau hafa hins vegar bæði komið út aftur í öðrum útgáfum með bílddælskum sveitum – Senjorinn með hljómsveitinni Græna bílnum hans Garðars á plötunni Endalaus (2003) og Ráðskonan mín rjóð og feit, á plötunni Spor með hljómsveitinni Farfuglunum (2005).

Fyrrnefnda lagið fjallar um lífskúnsterinn Bjarna Þórarin Valdimarsson (1913-72) sem kallaður var senjorinn en hann bjó lengstum á Bíldudal og málaði, lagið hefur stundum verið rifjað upp í fjölmiðlum í tengslum við umfjöllun um hann.

Nánari upplýsingar óskast um meðlimaskipan þessarar sveitar.

Efni á plötum