Gloss [1] (1995-98)

Gloss[1]

Gloss

Diskófönksveitin Gloss var starfandi um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og hélt uppi stuði á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins.

Gloss var stofnuð veturinn 1995-96 upp úr hljómsveitinni Atlotum, sveitin var æði fjölmenn í upphafi enda hugsuð til að spila fjölbreytta diskó-, sálar- og fönktónlist með brassívafi, meðlimir hennar voru þá Sævar Garðarsson trompetleikari, Freyr Guðmundsson trompetleikari, Jón Ingvar Bragason básúnuleikari, Matthías V. Baldursson hljómborðs- og saxófónleikari, Finnur P. Magnússon trommuleikari, Hjalti Grétarsson gítarleikari, Kristinn Guðmundsson bassaleikari og Helga Jóhanna Úlfarsdóttir söngkona. Eitthvað fækkaði þó í bandinu haustið 1996 þegar Jón Ingvar og Sævar hættu en þannig skipuð var Gloss þar til hún hætti störfum líklega 1998.

Sumarið 1996 sendi sveitin frá sér tvö lög sem komust á vinsældalista útvarpsstöðva en virðast ekki hafa komið út á safnplötum, sem oft hefur verið vettvangur sveita sem keyra á vinsældir stakra laga.