Glitbrá (1974-84)

Glitbrá

Hljómsveitin Glitbrá starfaði á Suðurlandi á áttunda og níunda áratugnum, líklega nokkuð samfellt á árunum 1974 til 1980 og síðar á árunum 1983 og 84. Sveitin vakti athygli þjóðarinnar þegar hún kom fram í spurningaþættinum Kjördæmin keppa í Ríkissjónvarpinu 1976 og lék lög eftir Gylfa Ægisson, en mest var hún þó á sveitaballamarkaðnum sunnanlands.

Ekki liggur ljóst fyrir hverjir skipuðu þessa hljómsveit en þar var þó fremstur í flokki Helgi Hermannsson (Logar o.fl.). Aðrir meðlimir sem víst er að léku með Glitbrá voru Bjartmar Guðlaugsson sem trommuleikari um tíma, og eins gæti verið að þeir Bragi Árnason einnig trommuleikari, Guðmar Ragnarsson hljómborð- og saxófónleikari, og Hrafnkell Óðinsson hafi leikið með henni um lengri eða styttri tíma.