Tríó Carls Möller (1967 / 1992-93 / 2006-08)

Tríó Carls Möller

Carl Möller píanóleikari starfrækti í nokkur skipti djasstríó undir eigin nafni, Tríó Carls Möller.

Fyrst er tríós getið í hans nafni árið 1967 en engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu tríóið með honum. Næst þarf að leita til ársins 1992 til að finna Tríó Carls Möller en það ár starfrækti hann sveit sem lék á Rúrek djasshátíðinni um vorið og einnig á norrænni djasshátíð síðar um sumarið. Sú útgáfa tríósins hafði að geyma auk Carls, Guðmund Steingrímsson trommuleikara og Gunnar Hrafnsson bassaleikara. Andrea Gylfadóttir kom fram með tríóinu í nokkur skipti. Ári síðar var Þórður Högnason orðinn bassaleikari sveitarinnar en hinir voru á sínum stað. Linda Walker kom fram með tríóinu í að minnsta kosti eitt skipti.

Nú liðu nokkur ár uns Tríós Carls Möller var getið í fjölmiðlum, það var árið 2006 og virðist tríóið hafa starfað nokkuð samfleytt til ársins 2008. Enn höfðu þá orðið bassaleikaraskipti og var Bjarni Sveinbjörnsson nú tekinn við bassanum.

Ekki virðist hafa verið starfrækt tríó í nafni Carls eftir 2008.