Hljómsveitir Guðjóns Matthíassonar (1954-78 / 1994 )

Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar

Guðjón Matthíasson harmonikkuleikari starfrækti hljómsveitir um árabil en hann var þekktur og virtur innan „gömlu dansa“ samfélagsins og komu út fjölmargar plötur í nafni Guðjóns og sveita hans, hér er fjallað um hljómsveitir hans eftir því sem heimildir liggja fyrir um þær en óskað er eftir frekari upplýsingum um sveitirnar eftir því sem við á.

Guðjón virðist hafa starfrækt hljómsveitir í eigin nafni fyrst árið 1954 og var þar um tríó að ræða, með honum var þá Haraldur Magnússon sem einnig var harmonikkuleikari en þeir tveir höfðu leikið saman áður á dansleikjum – nafn þriðja aðilans er ekki þekkt en sá var trommuleikari. Svo virðist sem þeir hafi starfað í nokkur ár sem tríó (líklega til 1958) en á sama tíma hafi Guðjón starfrækt aðra stærri sveit sem lék í Ingólfscafe. Sú sveit var skipuð auk Guðjóns þeim Skafta Sigþórssyni fiðluleikara, Tage Möller píanóleikara, Ágústi Guðmundssyni harmonikkuleikara og Lárusi Jónssyni. Einnig mun Grétar Geirsson harmonikkuleikari (þá mjög ungur) hafa starfað eitthvað með hljómsveit Guðjóns. Óljóst er hversu lengi ofangreind útgáfa hljómsveitar Guðjóns starfaði en árin 1959 og 60 var hann með hljómsveit sem lék reglulega í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði, ekki liggur fyrir hverjir léku með honum á því tímabili en Gunnar Parmesson gítarleikari var þó um tíma í sveit hans þarna, sjálfur lék Guðjón sem fyrr á harmonikku og söng en hann var einnig söngvari sveita sinna alla tíð.

Guðjón virðist hafa starfrækt tríó á árunum 1960 til 62 en sú sveit lék töluvert á landsbyggðinni og einkum þó í Keflavík, Magnús Guðjónsson píanó- og harmonikkuleikari og Gunnar Jónsson trommuleikari skipuðu tríóið með Guðjóni en Erlingur Einarsson leysti Gunnar af hólmi líklega 1962 og litlu síðar kom kornungur sonur Guðjóns til sögunnar, Sverrir Guðjónsson trommuleikari en hann var þá aðeins 13 ára gamall og söng einnig – árið 1963 komu einmitt út tvær smáskífur með söng Sverris en hljómsveit Guðjóns kom þar reyndar hvergi nærri. Þorvaldur Björnsson harmonikkuleikari og Einar Jónsson píanóleikari bættust um svipað leyti í hópinn í stað Magnúsar og þar með var tríóið orðið að kvartett.

Næstu árin lék hljómsveit Guðjóns Matthíassonar töluvert og gömlu dansarnir voru sem fyrr segir einkenni þeirrar sveitar, litlar sem engar upplýsingar er hins vegar að finna um skipan og stærð sveitarinnar, reikna má með að þeir feðgar Guðjón og Sverrir hafi skipað sveitina en einnig liggur fyrir að Sigurður Alfonsson lék með sveitinni um tíma annað hvort sem bassaleikari eða harmonikkuleikari, upplýsingar óskast um aðra meðlimi hennar.

Árið 1967 gaf hljómsveit Guðjóns út sína fyrstu plötu og þar með hófst tímabil þar sem nokkrar smáskífur litu dagsins ljós með sveitinni, þetta voru fjögurra til sex laga skífur og ber sú fyrsta titilinn Sverrir Guðjónsson syngur 6 íslenzk danslög eftir Guðjón Matthíasson – meðlimir sveitarinnar á þeirri plötu voru auk þeirra feðga, Þorvaldur Björnsson píanóleikari, Þorsteinn Þorsteinsson gítarleikari og Erlingur Einarsson trommuleikari sem þýðir að hlutverk Sverris var þarna einvörðungu að syngja en hann varð síðar þekktur söngvari.

Tríó Guðjóns Matthíassonar 1960

Skipan sveitarinnar var með svipuðum hætti ári síðar þegar næsta plata kom út, hún var fimm laga og sveitina skipuðu þeir Guðjón, Þorvaldur sem nú lék á bassa en ekki píanó, Erlingur trommuleikari og Jose Riba fiðlu- og saxófónleikari, Sverrir söng eins og áður. Platan kom út undir merkjum GM-tóna sem var útgáfufyrirtæki Guðjóns en flestar hans plötur komu út undir því útgáfumerki. Guðjón söng sjálfur á næstu plötu – Guðjón Matthíasson syngur og leikur ásamt félögum sínum, sem kom út 1969 og var sex laga en þar léku með honum Þorsteinn gítarleikari, Garðar Olgeirsson harmonikkuleikari, Karl Karlsson trommuleikari og Ómar Axelsson bassaleikari. Á næstu skífu (1970) eru það Sverrir og Haukur Þórðarson sem eru í aðalhlutverki sem söngvarar en sú plata ber titilinn Sverrir Guðjónsson & Haukur Þórðarson frá Keflavík syngja með Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar. Þar var Sverrir einnig við trommusettið og önnur kunnugleg nöfn í sveitinni s.s. Þorsteinn gítarleikari og Garðar Olgeirsson en Helgi E. Kristjánsson lék á bassann.

Sveitin lék heilmikið á þessum árum og var áberandi í auglýsingum fjölmiðla, þeir félagar léku t.a.m. í Silfurtunglinu sem þótti með stærri stöðum í Reykjavík en einnig í Hlégarði í Mosfellssveit, Festi í Grindavík og álíka stöðum en það var fastur liður hjá sveitinni að leika í Hlégarði á vorin – þá kom sveitin einnig fram í sjónvarpsþætti um haustið 1971 þar sem hún lék undir gömlu dönsunum, þá var sveitin skipuð þeim Guðjóni, Þorsteini, Sverri, Harry Jóhannessyni harmonikkuleikara og Árna Scheving bassaleikara.

Á næstu tveimur árum komu út fjórar smáskífur með hljómsveitinni þar sem eingöngu var leikið á hljóðfæri en ekki sungið, 1971 kom út sex laga platan Guðjón Matthíasson og Garðar Olgeirsson leika gömlu dansana en á þeirri skífu leika Guðjón og Garðar á nikkur, Þorsteinn á gítar, Helgi á bassa og Sverrir á trommur. Næsta ár (1972) komu hins vegar út þrjár plötur þar sem Guðjón lék með Harry Jóhannessyni, tvær þeirra báru yfirskriftina Nikkan hljómar: Guðjón Matthíasson og Harry Jóhannesson leika harmonikkulög, og sú þriðja Guðjón Matthíasson og Harry Jóhannesson leika gömlu dansana. Skipan sveitar Guðjóns var aðeins mismunandi á smáskífunum þremur, Sverrir og Þorsteinn léku á þeim öllum en Árni Scheving og Njáll Sigurjónsson skiptu með sér bassaleiknum.

Árið 1973 var svo komið að því að hljómsveit Guðjóns gaf út breiðskífu en hún var gefin út í samstarfi við söngvarann Friðbjörn G. Jónsson og bar nafnið Þar átti ég heima. Á plötunni var að finna tólf lög eftir Guðjón við texta hinna og þessa en um helmingur laganna voru instrumental, hljómsveit Guðjóns á plötunni var skipuð þeim Sverri á trommur, Njáli á bassa, Edwin Kaaber á gítar og Magnúsi Péturssyni á píanó og harmonikku auk Guðjóns sem lék venju samkvæmt á harmonikku en einnig kom Þórir Magnússon trommuleikari við sögu á plötunni, ekki liggur fyrir hvort hann var þarna meðlimur sveitarinnar eða gestur.

Hljómsveit Guðjóns 1962

Hljómsveit Guðjóns virðist hafa leikið eitthvað á gömlu dansa böllum í kringum útgáfu plötunnar en eftir það ber lítið á þeim félögum um tíma, sveitin birtist í sjónvarpsþætti árið 1975 en var líklega ekki starfandi um það leyti. Það var ekki fyrr en um haustið 1977 að hljómsveitin birtist aftur reglulega í auglýsingum dagblaðanna þar sem hún var auglýst í Ingólfscafe og um svipað leyti kom út önnur breiðskífa sveitarinnar í nafni Guðjóns Matthíassonar og hljómsveitar en platan hét Líf og fjör á sjöttu hæð sem var vísun í eitt laganna sem alls voru fjórtán. Ári síðar kom út önnur skífa, að þessu sinni sextán lag undir heitinu Gamalt og nýtt en á henni eins og þeirri á undan koma lögin úr ýmsum áttum og ekki nema hluti þeirra eftir Guðjón. Það er einnig athyglisvert að sveitin er skipuð mismunandi tónlistarmönnum á plötunum, á þeirri fyrri nýtur hann fulltingis Helga E. Kristjánssonar bassaleikara, Erlings Einarssonar trommuleikara og Þorsteins Þorsteinssonar gítarleikara sem allir höfðu verið í sveit hans áður en á síðari plötunni koma við sögu Sveinn Óli Jónsson trommuleikari, Edwin Kaaber gítar- og bassaleikari, Þórir Magnússon trommu- og ásláttarleikari og Gunnar Ormslev saxófónleikari auk Harrys Jóhannessonar harmonikkuleikara – jafnframt kemur við sögu á plötunni söngkona að nafni Guðrún Hulda [?]. Hljóðfæraleikaravalið á plötunni ber keim af því að session menn hafi verið fengnir í verkefnið en þessi plata (reyndar eins og sú á undan) var gefin út af Ámunda Ámundasyni í ÁÁ-records. Á sama tíma liggur fyrir að Guðjón starfrækti tríó sem lék á dansstöðunum en ekki liggur reyndar fyrir hverjir skipuðu það með honum.

Svo virðist sem Guðjón hafi starfrækt hljómsveit sína út árið 1978 en hann hafði verið meðal stofnenda Félags harmonikuunnenda í Reykjavík sem sett hafði verið á laggirnar 1977 og það má vera að sá félagsskapur hafi leitt til samspils innan harmonikkusamfélagsins í stað þess að starfrækja hljómsveit í eigin nafni. Það var ekki fyrr en 1986 að næst spurðist til hljómsveitar í hans nafni en þá kom út plata skráð undir Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar sem bar heitið Harmonikuplata með Guðjóni Matthíassyni og Þorleifi Finnssyni. Hér var um að ræða fjórtán laga plötu þar sem öll lögin voru eftir Guðjón en með þeim Þorleifi (sem leikur einnig á nikku) leika Jón Möller píanóleikari, Pétur Urbancic bassaleikari, Vilhjálmur Guðjónsson banjóleikari og Þórir Magnússon trommuleikari á plötunni.

1991 kom enn ein önnur plata út, að þessu sinni með Kristrúnu Sigurðardóttur (söngkonu) og Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar – Tíminn líður, sextán laga plata sem flest öll voru eftir Guðjón. Á þeirri plötu eru sumir meðlimir sveitarinnar gamalkunnir meðspilarar Guðjóns, Jón Möller á píanó, Erlingur Einarsson trommuleikari, Þorsteinn Þorsteinsson gítarleikari, Pétur Urbancic bassaleikari, og Reynir Sigurðsson sýlófónleikari en einnig leikur Grétar Geirsson harmonikkuleikari í nokkrum lögum plötunnar sem gestur.

Þremum árum síðar (1994) var Guðjón með kvartett skipaðan Jóni píanóleikara, Erlingi trommuleikara og Birni Erlingssyni bassaleikara sem m.a. spilaði í Ásbyrgis-salnum á Hótel Íslandi en sú sveit gaf út átján laga kassettu sem litlar upplýsingar er að finna um, á kassettunni söng Jóhanna Linnet með Guðjóni. Svo virðist sem það sé síðasta útgáfa Hljómsveitar Guðjóns Matthíassonar enda var hann þá orðinn 75 ára gamall. Ári síðar kom svo út safnplatan Kveðja til átthaganna en það var síðasta platan undir merkjum Guðjóns (og hljómsveita hans).

Þess má geta að plötusafnarinn Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum í Ísafjarðardjúpi annaðist „endurútgáfu“ á tveimur platna sveitarinnar, Líf og fjör á sjöttu hæð (frá 1977) og Kveðja til átthaganna (frá 1986), sem höfðu aldrei komið út á geisladiskaformi – þær útgáfur komu út í litlu upplagi og strangt til tekið voru þær líklega ólöglegar.

Efni á plötum