Tríó Ólafs Stephensen (1989-2005)

Tríó Ólafs Stephensen

Píanóleikarinn Ólafur Stephensen rak um árabil djasstríó en auk hans voru í því Guðmundur R. Einarsson trommuleikari og Tómas R. Einarsson bassaleikari.

Tríóið var sett á laggirnar í lok níunda áratugarins og naut strax nokkurra vinsælda sem jukust síðan jafnt og þétt. Þeir félagar höfðu yfrið nóg að gera og fengu jafnvel verkefni erlendis, fyrst 1990.

Það var svo árið 1994 sem Tríó Ólafs Stephensen gaf út sína fyrstu plötu, hún hlaut nafnið Píanó, bassi og tromma og var gefin út af Skífunni. Platan hafði mestmegnis að geyma standarda úr ýmsum áttum í djassútsetningum Ólafs en tónlist þeirra hafði verið skilgreind sem New York píanódjass, einnig voru á meðal laga lög eins og Kvæðið um fuglana eftir Atla Heimi og Ólastef, sem nutu nokkurra vinsælda og margir kannast við. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Degi

Tríeykið spilaði mjög reglulega og víðast hvar fyrir fullu húsi og þegar næsta plata leit dagsins ljós fimm árum eftir útgáfu fyrstu plötunnar (1995) héldu þeir félagar útgáfutónleika í búðarglugga Sævars Karls við Bankastræti. Upptökur höfðu farið fram „læv“ á Kjarvalsstöðum undir stjórn Sveins Kjartanssonar, fékk titilinn Betr‘ en annað verra, og forskriftin var nokkurn veginn sú sama og á fyrstu plötunni, standardar í bland við íslensk lög. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Eins og segir hér að ofan fékk Tríó Ólafs fjölmörg gigg erlendis, léku t.a.m. bæði í Suður- og Norður-Ameríku, auk Evrópu en einnig í Asíu og fóru fimm hundruð eintök af plötunni í dreifingu til Japans.

Árið 2000 kom þriðja og síðasta plata tríósins út en hún var tekin upp á tónleikum í Íslensku óperunni vorið 2000 sem voru í boði hjónanna Erlu Þórarinsdóttur og Sævars Karls Ólasonar, platan var gefin út af Sævari Karli. Að þessu sinni var með í för bandaríski slagverksleikarinn Bob Grauso en platan bar heitið Nú er það svart: Óli Steph í Óperunni!.

Tríóið starfaði til ársins 2005 að minnsta kosti.

Efni á plötum