Ólafur Stephensen (1936-2016)

Ólafur Stephensen

Ólafur Stephensen var kunnur djasspíanisti sem þó var mun meira áberandi á ýmsum öðrum sviðum, það var í raun ekki fyrr en að lokinni starfsævi sem hann lét til sín taka í tónlistinni en þá starfrækti hann vinsælt djasstríó.

Ólafur var Reykvíkingur í húð og hár, fæddur 1936, og kominn af Stephensen ættinni en forfeður hans höfðu verið framarlega í upplýsingastefnunni svokölluðu t.d. með því að starfrækja prentsmiðju í Viðey, segja má að hann hafi fetað svipaða slóð með sínum starfsvettvangi.

Ólafur lærði á píanó sem krakki en fyrst um sinn var harmonikka hans aðalhljóðfæri. Hann kom fyrst fram opinberlega í gamla Miðbæjarskólanum þegar lék með tveim félögum sínum á barnaskólaaldri undir nafninu SOS tríóið en hann var ekki mikið eldri þegar hann var farinn að vekja athygli fjölmiðla sem harmonikku- og píanóleikari á einhverjum jam-sessjónum.

Þá lék hann ungur með KK-sextettnum í nokkra mánuði, á harmonikku, og þurfti að fá sérstaka undanþágu fyrir hann vegna aldurs. Hann lék einnig með sveitum eins og Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar og Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar á menntaskólaárunum, og stóð í ströngu einnig á fleiri vígstöðvum, hann annaðist dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu og spilaði þar bæði djass og rokk sem þá var að koma til sögunnar, og flutti einnig hingað til lands djasstónlistarmanninn Chet Baker.

Að loknu stúdentsprófi hélt Ólafur til Bandaríkjanna (með viðkomu í lögfræðideild Háskóla Íslands) þar sem hann stundaði nám í fjölmiðlum og markaðsfræðum með áherslu á almannatengsl, og má segja að þá hafi tónlistin að mestu verið lögð til hliðar í bili. Reyndar spilaði hann eitthvað í New York þar sem hann var við nám, rétt til að drýgja tekjurnar, og einnig lék hann með Leiktríóinu 1960 hér heima en annars varð þarna um þriggja áratuga hlé á tónlistarferli hans. Vestan hafs kynntist hann vel þeim straumum sem tengdust New York djassinum og mótaði sinn eigin píanóstíl út frá þeim straumum.

Ólafur var alkominn frá Bandaríkjunum 1964 og fyrst um sinn starfaði hann suður á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum, þar sá hann m.a. um útvarps- og sjónvarpsþætti en hélt einnig áfram að starfa við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu, sá um djassþætti, m.a. með Jóni Múla Árnasyni. Hann starfaði ennfremur síðar sem framkvæmdastjóri Rauða krossins áður en hann fór á fullum krafti í auglýsingabransann, hvar hann starfaði á og síðar starfrækti eigin auglýsingastofu. Tengt því varð hann formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa og gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum.

Ólafur við píanóið

Ólafur skrifaði lengi um tónlist í dagblöðin, m.a. fyrir Vísi og Morgunblaðið, og síðar DV þannig að hann var að vissu leyti tengdur músíkbransanum þótt ekki væri hann sjálfur að spila. Hann hélt ennfremur utan um djasshátíð sem haldin var í Garðabæ að minnsta kosti tvisvar sinnum.

Það var svo í kringum 1988 sem Ólafur hóf að spila aftur opinberlega eftir um þriggja áratuga hlé, t.d. á Duus húsi og síðar Sólon en einnig á djasshátíðinni á Egilsstöðum. Hann var kominn með eigið tríó 1991, Tríó Ólafs Stephensen (með Guðmundi R. Einarssyni trommuleikara og Tómasi R. Einarssyni bassaleikara) og það tríó átti eftir að spila mikið næstu árin, mestmegnis þekkta alþýðuslagara í útsetningum Ólafs, og senda frá sér þrjár plötur, Píanó, bassi, tromma (1994), Betr‘ en annað verra (1999) og Nú er það svart: Óli Steph í Óperunni! (2000), á síðast töldu plötunni ásamt Bob Grauso slagverksleikara. Tríóið lék í nokkur skipti á erlendum vettvangi og starfaði líklega allt til ársins 2005.

Það má því segja að tónlistarferill Ólafs Stephensen sé tvískiptur, annars vegar unglingsárin fyrir nám og hins vegar eftir 1990 þegar hann var orðinn nokkuð fullorðinn.

Ólafur lést 2016, þá áttræður að aldri.

Efni á plötum