Tweety (1994-96)

Dúettinn Tweety

Hljómsveitin Tweety var annar leggur af tveimur sem til varð þegar hljómsveitin Todmobile hætti störfum um áramótin 1993-94, hinn leggurinn hlaut nafnið Bong.

Tweety byrjaði sem dansdúett en tveir þriðju hlutar kjarna Todmobile, Andrea Gylfadóttir og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hófu að vinna saman tónlist í upphafi árs 1994. Fyrsta afurð þeirra leit dagsins ljós á vormánuðum þegar lagið So cool kom út á safnplötunni Ringulreif, þá strax töluðu þau um að plata væri væntanleg um haustið.

Fregnir bárust af því að dúettinn hefði gert samning við hollenskt útgáfufyrirtæki CNR music um útgáfu á laginu So cool á smáskífuformi og ef hún gengi vel yrði um áframhaldandi samstarf að ræða.

Fljótlega kom annað lag út á safnplötu, Lollipops á plötunni Reif í staurinn og ekki liðu margar vikur uns lagið Gott mál kom út á safnplötunni Reif í sundur. Það lag vakti meiri athygli en hin tvö lögin á undan sem bæði voru á ensku, og naut nokkurra vinsælda ekki síst fyrir áhugaverðan texta sem var vægast sagt enskuskotinn en um leið ádeila á slettur og slangur í tungumálinu.

Hljómsveitin Tweety

Um þetta leyti gjörbreyttist Tweety úr dúett í hljómsveit en þá gengu til liðs við þau Þorvald og Andreu, Eiður Arnarsson bassaleikari, Máni Svavarsson hljómborðsleikari og Ólafur Hólm trommuleikari. Þar með varð tónlistin töluvert meira lifandi en ella og bauð um leið upp á breiðara prógramm. Með það hélt sveitin meira út í ballgeirann og var nokkuð öflug á því sviði. Reyndar þurftu þau að taka nokkurra vikna frí frá spilamennsku um haustið þegar þrír meðlimir sveitarinnar voru uppteknir að spila í uppfærslu Loftkastalans á Rocky horror picture show.

En Tweety gaf út tíu laga plötu fyrir jólin 1994 og var hún nokkuð öðruvísi en menn höfðu átt von á þar eð sveitin hugði á landvinninga. Flest lög plötunnar, sem bar titilinn Bít, voru á íslensku og aðeins lögin tvö sem komið höfðu út á fyrstu tveimur safnplötunum voru á ensku.

Bít seldist ágætlega (á þriðja þúsund eintaka) og fékk heilt yfir ágæta dóma í pressunni hér heima, hún fékk þó varla nema þokkalega dóma í Morgunblaðinu en ágæta í DV og Degi, og mjög góða í Helgarpóstinum. Þorvaldur samdi lögin en Andrea textana og svo fór að þau hlutu Íslensku tónlistarverðlaunin í flokkunum laga- og textahöfundar ársins. Eiður Arnarsson var svo einnig kjörinn bassaleikari ársins.

Tweety

Smáskífan So cool kom út í Hollandi á svokölluðum „maxi single“ en þar var lagið í fimm mismunandi útgáfum, skífan hlaut misjafna dóma þar í landi og ekki varð framhald á samstarfinu við CNR útgáfuna.

Tweety lagði ekki árar í bát og sveitin byrjaði fljótlega eftir áramótin 1994-95 að vinna sína aðra breiðskífu. Safnplöturnar voru má segja aðal vettvangur Tweety og ný lög með sveitinni komu út á skífum eins og Reif í skeggið, Popp(f)árinu, Pottþétt 2, Reif í budduna og Pottþétt partý.

Það fór þó aldrei svo að nýja platan kæmi út, smám saman varð þeim ljóst að efnið átti meira skylt við Todmobile en Tweety og í miðju upptökuferlinu var sú ákvörðun tekin að gera þetta að Todmobile plötu. Eyþór Arnalds var kallaður til og lék hann inn á upptökurnar þótt hann yrði ekki fastur meðlimur aftur í sveitinni enda að vinna í sínum Bong-dúett, en heimatökin voru hæg að því leyti að Eiður hafði hvort eð var verið í Todmobile og Ólafur trommuleikari einnig áður. Því varð Tweety platan að Todmobile plötunni Perlur og svín, og með því lauk sögu Tweety.

Efni á plötum