Barnakór Tónlistarskóla Rangæinga [1] (1976-87)

Barnakór Tónlistarskóla Rangæinga

Barnakór Tónlistarskóla Rangæinga á Hvolsvelli var um tíma einn af öflugri barnakórum landsins en þar spilaði inn í þáttur Sigríðar Sigurðardóttur stjórnanda og eiginmanns hennar Friðriks Guðna Þórleifssonar en þau hjónin lyftu grettistaki í rangæsku tónlistarlífi þegar þau tóku við Tónlistarskóla Rangæinga.

Kórinn var stofnaður haustið 1976 og varð strax áberandi í rangæsku tónlistarlífi undir stjórn Sigríðar, hann söng víða á tónleikum, var reglulegur gestur á kóramótum, söng í útvarpi og sjónvarpi og hélt m.a.s. tónleika erlendis, t.d. í Noregi 1978 og í Færeyjum á tíu ára afmæli sínu árið 1986.

Hápunktinum var þó náð þegar kórinn söng fimmtán lög inn á plötu í Stúdíó Stemmu hjá Sigurði Rúnari Jónssyni (Didda fiðlu) en hún kom út 1982 undir titlinum Ég bíð eftir vori. Platan var óvenjuleg að því leyti að hún var í tíu tommu stærð líkt og 78 snúninga plöturnar hér fyrr.

Barnakór Tónlistarskóla Rangæinga starfaði til vorsins 1987 en þá hætti Sigríður.

Efni á plötum