Afmælisbörn 30. maí 2018

Jónas Ingimundarson

Afmælisbörn Glatkistunnar eru tvö talsins að þessu sinni:

Jónas Ingimundarson píanóleikari er sjötíu og fjögurra ára í dag. Hann nam píanóleik, fyrst hér heima en síðan í Austurríki, og hefur starfað sem píanóleikari, kórstjórnandi og píanókennari síðan. Píanóleik hans má heyra á fjölmörgum plötum, þar af nokkrum sólóplötum. Jónas hefur ennfremur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir tónlistarstörf sín, þar má nefna fálkaorðuna og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran söngkona frá Búðardal á stórafmæli dagsins en hún er fimmtug í dag. Hún nam söng hér heima og í Þýskalandi þar sem hún starfaði um árabil og lagði áherslu á ljóðasöng, en plötur með söng hennar hafa komið út á Íslandi og í Þýskalandi en Hanna Dóra hefur haldið tónleika mjög víða um Evrópu. Hún starfar einnig í Tríói Blik, sem gefið hefur út tvær plötur.