Beathoven (1988)

Beathoven á sviðinu í Dublin

Dúettinn Beathoven var framlag okkar Íslendinga í Eurovion söngvakeppninni vorið 1988 sem haldin var í Dublin á Írlandi.

Söngvarinn Stefán Hilmarsson hafði sungið lag og texta Sverris Stormskers, Þú og þeir, til sigurs í undankeppni Eurovision hér heima og þegar ljóst var að þeir félagar færu sem fulltrúar Íslands í lokakeppnina tóku þeir upp nafnið Beathoven, fleiri tillögur komu þó til greina og meðal þeirra var tillagan Beautifools. Lagið var ennfremur endurskírt og kallaðist nú Sókrates (e. Socrates).

Þeir Sverrir Stormsker og Jakob Frímann Magnússon gerðu enskan texta við lagið og einnig var gerður franskur texti við það en enska útgáfan auk þeirrar íslensku var látin duga á snældu sem hópurinn dreifði meðal fjölmiðlafólks í Írlandi. Íslenski hópurinn var sá eini sem ekki gaf út smáskífu á plötu í tengslum við keppnina.

Með tvíeykinu á sviðinu í Dublin voru Guðmundur Jónsson gítarleikari, Kristján Viðar Haraldsson hljómborðsleikari, Edda Borg hljómborðsleikari og Þorsteinn Gunnarsson trommuleikari, sem þóttust leika á hljóðfæri sín eins og Sverrir sjálfur sem sat við flygil en raddir þeirra voru þó raunverulega sungnar á sviðinu, auk Stefáns sem glímdi reyndar við veikindi allt fram á síðustu stundu.

Eurovision hópurinn 1988

Þetta varð þriðja framlag Íslands í Eurovision keppninni en þjóðin hafði í fyrsta skiptið tekið þátt 1986 og svo aftur ári síðar og hafnað í tvígang í sextánda sæti, svo varð einnig raunin í þetta þriðja sinn en Íslendingar höfðu sem fyrr spennt væntingabogann alltof hátt. Margir vildu meina að Jón Páll Sigmarsson, sem var með í för hópsins, hefði tekið of mikla athygli frá flytjendunum og hefði þannig átt sinn þátt í að ekki gekk betur.

Ekki varð framhald á þessu samstarfi.

Sjá einnig Söngvakeppni Sjónvarpsins [3] (1988 – Þú og þeir (Sókrates) / Socrates) [tónlistarviðburður]