Bessi Bjarnason (1930-2005)

Bessi Bjarnason

Leikarinn ástsæli Bessi Bjarnason kom nokkuð við sögu íslenskrar tónlistar, bæði í sönghlutverkum tengt leikritum sem gefin voru út á plötum og einnig sem söngvari á barnaplötu sem naut gríðarmikilla vinsælda á sínum tíma.

Bessi (fæddur 1930) var Reykvíkingur og bjó þar alla ævi. Eftir stúdentspróf nam hann leiklist og starfaði hjá Þjóðleikhúsinu í nærri því hálfa öld, þar af þrjátíu og átta ár fastráðinn en hlutverk hans á sviði munu hafa verið um þrjú hundruð talsins. Þá lék hann einnig hjá Borgarleikhúsinu og Loftkastalanum, í útvarpsleikritum, sjónvarpi og kvikmyndum. Þótt hann væri fyrst og fremst gamanleikari þótti hann einnig sýna stjörnuleik í alvarlegri hlutverkum og t.a.m. var leikur hans í kvikmyndinni Skilaboð til Söndru af þeim toga en þar var hann í aðalhlutverkinu.

Bessi er líklega þekktastur fyrir hlutverk sín í barnaleikritum Thorbjörns Egner, Kardemommubænum og Dýrunum í Hálsaskógi sem gefin voru út á plötum SG-útgáfunnar á sínum tíma en margir geta ekki hugsað sér Mikka ref úr síðarnefnda leikritinu öðruvísi en að Bessi leiki hann. Auk þess lék hann hlutverk í Síglöðum söngvurum og Verkstæði jólasveinanna sem einnig komu út á plötum.

Leik hans og söng má heyra á fjölmörgum öðrum plötum tengdum leikhúsinu en einnig komu út nokkrar plötur sem höfðu að geyma upplestur hans á þekktum ævintýrum, þeirra á meðal eru Bessi segir börnunum sögur (1980), Bessi Bjarnason segir sögur og syngur fyrir börnin (1981) og Bessi Bjarnason: HC Andersen ævintýri (1984) sem allar komu út hjá Fálkanum. Þá var hann í hlutverki sögumanns á plötu með tónverkinu Pétur og úlfurinn eftir Eugene Ormandy. Ennfremur má nefna að árið 1987 kom út snældan Jónas og fjölskylda sem innihélt stutta leikþætti með Bessa í aðalhlutverki en áratuginn á undan höfðu þeir notið mikilla vinsælda á Ríkisútvarpinu.

Bessi ásamt Ómari Ragnarssyni félaga sínum úr Sumargleðinni

Bessi var þó ekki eingöngu í hlutverki leikara á plötum því árið 1969 kom út á vegum SG-hljómplatna Bessi Bjarnason syngur hinar góðkunnu barnavísur Stefáns Jónssonar. Óhætt er að segja að sú plata sé meðal vinsælustu barnaplatna samtímans (sem voru reyndar ekki margar) en hún var til á flestum heimilum og varð stór partur af tónlistarlegu uppeldi nokkurra kynslóða á Íslandi. Lögin Sagan og Gutta, Aravísur og Aumingja Siggi eru sem greypt í vitund fólks frá þessum tíma.

Bessi var lengi í Sumargleðinni sem fór hringinn í kringum landið á sumrin í fjölda ára með söng og skemmtun við miklar vinsældir og troðfullum samkomuhúsum. Sumargleðin gaf út tvær plötur og á fyrri plötunni sem kom út 1981 má heyra lagið Bús-áhöldin með Bessa.

Fjölmörg laga með söng Bessa má heyra á safnplötum sem komið hafa út í gegnum tíðina; Stóra bílakassettan IV (1979), Barnagælur: 20 sígild barnalög (1991), 100 íslensk í ferðalagið (2009), Stóra barnaplatar (1977), Stóra barnaplatan 1 og 2 (1997 og 2000), Króni og Króna (2005) og Litlu andarungarnir (1983), svo nokkur dæmi séu nefnd.

Bessi Bjarnason lést árið 2005 aðeins fáeinum dögum eftir 75 ára afmæli sitt.

Efni á plötum