Bjarni Hjartarson (1943-2013)

Anna Flosadótir og Bjarni Hjartarson

Bjarni Hjartarson var ekki stórt nafn í íslenskri tónlist þegar hann ásamt eiginkonu sinni sendi frá sér tólf laga plötu árið 1984 en eitt laga plötunnar naut nokkurra vinsælda.

Haraldur Bjarni Hjartarson (f. 1943) hafði eitthvað fengist við tónlist en þau Anna Flosadóttir (dóttir Flosa Ólafssonar) eiginkona hans hófu að koma fram opinberlega á skemmtunum í heimabyggð sinni, Búðardal upp úr 1980. Þar fluttu þau frumsamið efni Bjarna, síðar bauðst þeim að koma fram á kvöldum Vísnavina á höfuðborgarsvæðinu sem og á SATT kvöldum syðra og í kjölfarið kom upp sú hugmynd að vinna plötu með lögum hans.

Platan var unnin í Hljóðrita í Hafnarfirði og var Pálmi Gunnarsson þeim mest innan handar við hljóðritunina og söng jafnframt eitt laganna. Anna söng flest laganna og Ólöf Halla Bjarnadóttir dóttir þeirra Bjarna eitt lag en ýmsir þekktir tónlistarmenn komu við sögu einnig svo sem Þuríður Sigurðardóttir, Jon Kjell Seljeseth, Sigurður Karlsson, Bergþóra Árnadóttir og Gunnar Þórðarson en sá síðast taldi annaðist útsetningar á tónlistinni. Sigurður Bjóla Garðarsson sá um upptökurnar.

Platan sem var tólf laga og hlaut titilinn Við sem heima sitjum, kom út 1984 og hlaut nokra athygli fyrir lagið Vinur minn missti vitið en það var einmitt lagið sem Pálmi söng. Platan fékk þó ekkert sérstaklega góða dóma í DV, varla nema rétt sæmilega.

Þau Bjarni og Anna fylgdu plötunni eitthvað eftir og voru eitthvað að koma fram næstu árin en Bjarni var ennfremur eitthvað viðloðandi Bræðrabandið sem var starfandi 1987. Ekki liggur þó fyrir hvort hann var í þeirri sveit.

Bjarni lést 2013.

Efni á plötum