Tjarnarkvartettinn (1989-2000)

Tjarnarkvartettinn

Sönghópurinn Tjarnarkvartettinn starfaði í Svarfaðardalnum í ríflega áratug, gaf út fjórar plötur og var áberandi í norðlensku tónlistarlífi um árabil.

Tiluð kvartettsins má rekja til brúðkaups Rósu Kristínar Baldursdóttur og Hjörleifs Hjartarsonar sumarið 1989 en þar sungu í veislunni systkini Hjörleifs, Kristján Eldjárn, Þórarinn og Sigrún Hjartarbörn auk Kristjönu Arngrímsdóttur eiginkonu Kristjáns, undir nafninu Tjarnarkvartettinn. Það var í raun fyrsta útgáfa kvartettsins.

Síðar mynduðu bræðurnir Hjörleifur (tenór) og Kristján (bassi) kvartettinn ásamt eiginkonunum Rósu Kristínu (sópran) og Kristjönu (alt), og hófu að koma fram við ýmis opinber tækifæri undir söngstjórn Rósu Kristínar þótt ekki héldu þau opinbera sjálfstæða tónleika fyrr en haustið 1992.

Nafn kvartettsins má rekja til Tjarnar, æskuheimilis þeirra bræðra í Svarfaðardalnum en hjónin voru bændur þar í sveit með tónlistina sem aukabúgrein.

Tjarnarkvartettinn var mjög virkur eftir 1992, söng á hvers kyns skemmtunum í heimabyggð og á Norðurlandi almennt en fór einnig í tónleikaferðir um aðra landshluta og fékk yfirleitt ágæta dóma fyrir vandaðan söng. Efnisskráin hafði að geyma mjög fjölbreytta tónlist, yfirleitt a capella en einnig með undirleik hljóðfæra, allt frá ljóða- og sálmasöng, til djass, léttpopps og þjóðlaga.

1994 sendi Tjarnarkvartettinn frá sér sína fyrstu plötu en hún bar nafn kvartettsins og var gefin út af Friðrik Friðrikssyni Sparisjóðsstjóra á Dalvík undir merkjum FF-útgáfunnar. Platan sem var tuttugu og tveggja laga, kom bæði út á geislaplötu og snældu og hlaut ágætar viðtökur, hún fékk ágæta dóma í Degi og Morgunblaðinu og þokkalega í DV. Hreinn Valdimarsson var upptökustjóri og átti hann eftir að vinna með þeim að seinni plötum kvartettsins einnig en platan var tekin upp í Fella- og Hólakirkju. Gerrit Schuil var þeim innan handar með útsetningar og almenna ráðgjöf.

Tjarnarkvartettinn við upptökur

Tjarnarkvartettinn var þónokkuð viðloðandi leikhúslífið í Eyjafirðinum og 1995 komu þau við sögu í sýningunni GUÐ/jón á vegum Leikfélags Akureyrar, í kjölfarið bauðst þeim að koma fram á leiklistarhátíð í Finnlandi þar sem þau fengu afar góðar viðtökur. Og Tjarnarkvartettinn fór í nokkur skipti eftir það til útlanda í tónleikaferðalög, t.a.m. til Danmerkur (1996), Lichtenstein (1997) og Belgíu (1999).

Plata Tjarnarkvartettsins hafði fengið góða dóma sem fyrr segir og 1995 hafði Japis samband við þau og vildi gefa út jólaplötu með kvartettnum. Hún kom út fyrir jólin og gekk einnig þokkalega, fékk t.d. mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Platan fékk heitið Á jólanótt og hafði að geyma átján sígild jólalög, að þessu sinni fóru upptökur fram í Dalvíkurkirkju.

Nokkur bið varð nú á útgáfu platna með Tjarnarkvartettnum en hann var sem fyrr vel virkur á tónleikasviðinu, auk almennra tónleika varð kvartettinn hluti af dagskrá tónlistarhátíðarinnar Sumartónleika í Skálholti og þau sungu ennfremur á Hólahátíð svo dæmi séu nefnd.

Tjarnarkvartettinn

Næsta plata kom síðan út 1998 og hét Í fíflúlpum. Á henni var að finna tuttugu íslensk lög, flest eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson sem vann með þeim nokkuð á þessum tíma, en ljóðin komu úr ýmsum áttum s.s. frá nöfnunum Hallgríms Péturssonar og Helgasonar. Tjarnarkvartettinn gaf sjálfur út plötuna en upptökur fóru að þessu sinni fram í Reykholtskirkju í Borgarfirði undir stjórn Hreins Valdimarssonar sem fyrr. Guðmundur Óli Gunnarsson var kvartettnum til aðstoðar einnig. Dómur gagnrýnanda Morgunblaðsins var afar jákvæður í garð plötunnar.

Og plötuútgáfu Tjarnarkvartettsins var ekki lokið, leikárið 1998-99 sýndi Leikfélag Akureyrar leikritið Systur í syndinni undir leikstjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur og þar lék kvartettinn veigamikið hlutverk við sköpun tónlistar sem var eftir áðurnefndan Hróðmar Inga Sigurbjörnsson. Þegar leikfélagið treysti sér ekki til að gefa út plötu með tónlistinni úr leikritinu vegna fjárhagsstöðu sinnar, gerðu Tjarnarkvartettinn og Hróðmar Ingi það bara sjálf, upptökur fóru fram nyrðra en í þetta sinn undir stjórn Kristjáns Edelstein. Platan fékk eins og fyrri plötur Tjarnarkvartettsins mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Ljóst var að endalok Tjarnarkvartettsins væru framundan þegar þau Kristján og Kristjana ákváðu að flytja til Danmerkur sumarið 2000. Þar með lauk sögu kvartettsins sem hefur ekki komið saman svo vitað sé.

Þrjú þeirra, Kristjana, Kristján og Hjörleifur komu síðar við sögu á plötu Árna Hjartarsonar, Villifé, sem út kom 2006. Kristjana hefur ennfremur sent frá sér nokkrar sólóplötur og Hjörleifur er þekktur sem annar meðlimur tvíeykisins Hundur í óskilum sem skemmt hefur um land allt og gefið út plötur. Öll hafa þau fjögur komið við sögu á plötum annarra listamanna og sungið opinberlega við ýmis tækifær síðan sögu Tjarnarkvartettsins lauk.

Efni á plötum