Bjarki Tryggvason (1947-)

Bjarki Tryggva

Bjarki Tryggvason verður eflaust þekktastur fyrir söng sinn og þá sérstaklega í lögunum Í sól og sumaryl og Glókolli, en hann lék einnig á bassa og gítar auk þess að semja lög.

Bjarki Sigurjón Tryggvason er fæddur á Akureyri 1947 og hefur mest alla tíð verið viðloðandi og kenndur við höfuðstað Norðurlands. Hann hneigðist mjög fljótlega til tónlistariðkunar og mun hafa byrjað að fikta við hljóðfæraleik um níu ára aldur, hann kom fyrst við sögu í skólahljómsveit í Gagnfræðiskóla  Akureyrar en sú sveit bar líklega ekki nafn. Næst kom unglingahljómsveitin Pónik sem lék einkum gítartónlist í tíðaranda Shadows og þá bítlasveitin Taktar sem starfaði til ársins 1965 en hún hefur verið nefnd sem fyrsta norðlenska sveitin sem lék bítlatónlist. Bjarki lék að öllum líkindum á bassa í þessum sveitum auk þess að gegna hlutverki söngvara.

Vorið 1965 er Bjarki var orðinn tuttugu og tveggja ára gamall bauðst honum að ganga til liðs við hljómsveitina Póló sem þá hafði starfað í um ár. Bjarki lék í fyrstu á gítar eingöngu en fljótlega hóf hann að syngja með sveitinni einnig ásamt söngkonunni sem þar var fyrir, Erlu Stefánsdóttur.

Þegar Erla hætti í Póló til að starfa með Hljómsveit Ingimars Eydal var sveitin nefnd Póló og Bjarki, sveitin gaf út fjórar smáskífur til ársins 1969 þegar hún hætti störfum og á þremur þeirra var Bjarki aðalsöngvari Póló (Erla kom aftur og söng inn á þá síðustu). Hæst ber á þeim árum fyrsta smáskífa sveitarinnar en þar nutu lögin Lási skó og þó sérstaklega Glókollur vinsælda.

Fyrsti vísir að sólóferli Bjarka var þegar hann söng lagið Ást við fyrstu sýn á safnplötunni Pop festival ´70 en undirleikurinn mun hafa verið aðkeyptur frá Bretlandi. Það lag vakti ekki neina athygli.

Bjarki ungur að árum með gítarinn

Eftir að Póló lagði upp laupana 1969 gekk Bjarki í Hljómsveit Ingimars Eydal (um áramótin 1969-70) og átti eftir að leika þar á gítar og bassa auk þess að syngja. Sú sveit var á hátindi frægðar sinnar á þessum árum, var ekki aðeins þekkt fyrir Sjallastemmingu sína heldur einnig þekkt á landsvísu og hafði þá gefið út fjölda platna sem notið höfðu vinsælda. Um þetta leyti var hann að ljúka námi í húsgagnasmíði og átti hann eftir að starfa nokkuð við smíðar samhliða tónlistinni.

Það var þó ekki fyrr en 1972 sem næsta plata með Hljómsveit Ingimars Eydal kom út en það var fyrsta breiðskífa hennar og hlaut titilinn Í sól og sumaryl. Titillagið, sungið af Bjarka, sló samstundis í gegn og hefur fylgt honum síðan en þess má geta að um leið kom þetta lag höfundi lagsins, Gylfa Ægissyni einnig á kortið. Einnig naut lagið Ég sá þig nokkurra vinsælda (einnig eftir Gylfa) en Bjarki söng um helming laganna á móti Helenu Eyjólfsdóttur.

Bjarki hafði ekki gert mikið af því að koma fram einn opinberlega en það hafði hann þó gert á tónleikum sem hljómsveitin Ævintýri stóð fyrir við Árbæ (þar sem Árbæjarsafn stendur núna). Hann átti eftir að koma meira fram einn síns liðs næstu árin þegar sólóferill hans hófst.

Hann hóf að leggja drög að fyrstu sólóplötu sinni 1972 en hún kom út á vegum Tónaútgáfunnar á Akureyri 1973. Bjarki var ekkert að flækja málin neitt og hóaði í félaga sína úr hljómsveit Ingimars til að leika undir á plötunni og útkoman varð breiðskífan Kvöld, um helmingur laganna var eftir Bjarka sjálfan sem hefur fengist nokkuð við lagasmíðar. Kvöld fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu en galt líklega nokkuð fyrir það að útgáfu og dreifingu plötunnar var stýrt frá Akureyri.

Þegar Bjarki hafði starfað með Hljómsveit Ingimars Eydal í fimm ár hætti hann í sveitinni, um áramótin 1974-75. Hann stofnaði ásamt fleirum hljómsveitina Blindhæð sem starfaði í fáeina mánuði en lék einungis opinberlega í örfá skipti. Eftir að sú sveit lognaðist útaf flutti Bjarki suður til Reykjavíkur sumarið 1975 og starfaði þar um hríð.

Bjarki Tryggvason

Kominn suður komst hann í betri sambönd við plötuútgáfur og fljótlega sendi hann frá sér tveggja laga plötu sem hafði að geyma lög eftir Van Morrison og Eagles, fyrrnefnda lagið var Wild night og var sungið á frummálinu en hitt lagið var Tequila sunrise með íslenskum texta undir heitinu Hver ert þú? Hljómplötuútgáfan Demant gaf plötuna út en félagar úr hljómsveitinni Júdas önnuðust undirleik á henni ásamt fleirum, lögin voru tekin upp í Hljóðrita sem þá var nýtekinn til starfa í Hafnarfirði. Lögin tvö komu einnig út á safnplötunni Peanuts sem sama útgáfa sendi frá sér um svipað leyti. Smáskífan fékk fremur slaka dóma í Morgunblaðinu, Vikunni, Þjóðviljanum og Tímanum.

Síðsumars 1975 bárust þær fréttir að Bjarki yrði næsti bassaleikari hljómsveitarinnar Brimkló sem þá var að fara í gegnum miklar mannabreytingar en hún hafði verið stofnuð þremur árum fyrr. Þegar til kom voru mannabreytingarnar það miklar að ný sveit var mynduð og hljómsveitin Mexíkó varð að veruleika. Brimkló átti þó eftir koma aftur til sögunnar, miklu sterkari og vinsælli. Bjarki starfaði með hljómsveitinni Mexíkó í um eitt ár.

Lítið fór fyrir Bjarka eftir það og næstu árin reyndar, til hafði staðið að hann færi til London og tæki upp sína aðra breiðskífu ásamt félögum úr Change sem þar voru að harka en af því varð aldrei og svo fór að hann var lítið viðloðandi tónlistarlífið næstu árin. Bjarki starfaði t.d. um tíma við Kröflu þar sem verið var að reisa virkjun á þessum tíma en það var síðan í ársbyrjun 1979 sem hann byrjaði að vinna að nýrri plötu í Hljóðrita. Magnús Kjartansson var aðal maðurinn, stjórnaði upptökum og útsetti tónlistina sem að mestu leyti var íslensk. Fjölmargir aðstoðarmenn komu að plötunni s.s. félagar úr Brimkló og Change.

Bjarki Tryggvason í Sjónvarpssal 1973

Platan sem var tíu laga og hlaut titilinn Einn á ferð kom út um sumarið og fékk ágætar viðtökur gagnrýnanda Morgunblaðsins en fleiri dómar birtust ekki, Hljómplötuútgáfan gaf hana út. Lagið Glókollur sem Bjarki hafði á sínum tíma gefið út með hljómsveitinni Póló hafði þarna gengið í endurnýjun lífdaga og kom út í nýrri útgáfu en söngvarinn hafði aldrei verið fullkomlega sáttur við fyrri útgáfuna.

Segja má að eftir útgáfu þessarar plötu hafi Bjarki að mestu dregið sig í hlé frá tónlistinni. Hann var á þessum tíma aftur fluttur til Akureyrar og þar átti hann eftir að vera nokkuð áberandi, stóð þar í verslunarrekstri og rak einnig um tíma leiktækjasal auk annarra starfa. Síðar átti hann eftir að flytja aftur til Reykjavíkur og nam þá gullsmíði.

Bjarki hefur því lítið verið í tónlistinni síðan um 1980 en hann hefur þó einstöku sinnum birst á söngsviðinu, hann kom t.d. fram á Tónaflóðs tónleikum í Reykjavík um miðjan níunda áratuginn og hefur einnig tekið þátt í hinum ýmsum tónlistarhátíðum sem settar hafa verið á svið m.a. á Broadway og Sjallanum til að heiðra tónlist fyrri áratuga.

Lög Bjarka með Hljómsveit Ingimars Eydal og Póló poppa reglulega upp á safnplötum og hafa gert í gegnum tíðina, þeirra á meðal má nefna Óskalögin 3 (1999), Strákarnir okkar (1994), Pottþétt sumar (1999), Í sól og sumaryl (1995) og Gullmolar (1997) svo nokkur dæmi séu nefnd.

Efni á plötum 

Sjá einnig (Póló)

Sjá einnig (Hljómsveit Ingimars Eydal)