Póló (1964-69)

Póló og Erla2

Póló og Erla

Hljómsveitin Póló frá Akureyri var með vinsælustu hljómsveitum norðan heiða um árabil þótt ekki hafi hún skákað veldi Hljómsveitar Ingimars Eydal.

Póló sem lék bítlatónlist jafnt á við gömlu dansana, var stofnuð vorið 1964 og mun hafa leikið fyrst opinberlega í Mývatnssveit, meðlimir sveitarinnar voru þá Pálmi Stefánsson harmonikku- og bassaleikari, Gunnar Tryggvason gítarleikari, Steingrímur Stefánsson trommuleikari og Erla Stefánsdóttir söngkona en hún var aðeins sautján ára gömul. Pálmi var titlaður hljómsveitarstjóri eins og þá tíðkaðist ennþá með hljómsveitir.

Ásmundur Kjartansson tók fljótlega við gítarleikarahlutverkinu af Gunnari og vorið 1965 kom Bjarki Tryggvason inn í hljómsveitina, fyrst eingöngu sem gítarleikari en síðan einnig sem söngvari.

Frá stofnun hafði sveitin gengið undir nafninu Póló og Erla en þegar söngkonan hætti haustið 1965 í sveitinni til að syngja með Hljómsveit Ingimars Eydal og Bjarki tók við aðalsönghlutverkinu kallaðist sveitin Póló og Bjarki.

Póló og Erla

Póló, Beta og Bjarki

Næsta sumar (1966) bættist söngkonan Beta (Elísabet Jóhannesdóttir) í hópinn og var sveitin þá iðulega auglýst sem Póló, Beta og Bjarki en hún starfaði í eitt ár með sveitinni.

Póló hafði spilað nær eingöngu á norðan- og austanverðu landinu þar til haustið 1966 sem sveitin kom suður til Reykjavíkur og lék í Glaumbæ.

Beta söng með Póló til sumarið 1967 gekk í garð en þá um það leyti kom út fjögurra laga lítil plata. Þorsteinn Kjartansson hafði þá bæst í sveitina en hann lék á saxófón, klarinettu og bassa, Pálmi hafði þá fært sig yfir á orgel.

Platan sem gefin var út af Tónaútgáfunni á Akureyri (undir Pharlophone Odeon merkinu) var hljóðrituð í Ríkisútvarpinu af Knúti Skeggjasyni. Tónaútgáfan var í eigu Pálma hljómsveitarstjóra en fyrirtækið átti eftir að standa að útgáfu allra platna Póló en þær urðu alls fjórar.

Þrjú af lögunum fjórum voru erlend en fjórða lagið, Glókollur er löngu orðið sígilt. Eitt hinna laganna, Lási skó var þó vinsælt fyrst um sinn áður en Glókollur tók yfir. Platan fékk þokkalega dóma í Tímanum.

Um haustið 1967 gekk Erla aftur til liðs við Póló en hún hafði þá hætt að syngja með Ingimar Eydal, þau Erla og Steingrímur trommuleikari voru á þeim tíma hjón.

Póló og Erla

Póló

Önnur plata kom út í kjölfarið og í þetta skiptið var sveitin kynnt á plötuumslagi sem Póló og Erla. Platan sem var fjögurra laga hafði að geyma stórsmellinn Lóan er komin en það lag sló rækilega í gegn og heyrist ennþá á ljósvakamiðlunum. Hin lögin þrjú vöktu litla athygli en platan hlaut þokkalega dóma í Vikunni og mjög góða í Tímanum.

Plöturnar tvær seldust báðar mjög vel, sú fyrri í þrjú þúsund eintökum og varð því söluhæsta plata ársins en sú síðari í um tvö þúsund og fimm hundruð eintökum.

Póló starfaði áfram við nokkrar vinsældir og voru báðir söngvararnir í sveitinni þar til um haustið 1968 þegar Erla hætti aftur, Gunnar Tryggvason var þá aftur genginn til liðs við sveitina og hafði tekið við bassanum af Ásmundi.

Þriðja fjögurra laga smáskífan kom út fljótlega eftir það með Póló (og Bjarka), hún vakti fremur litla athygli en fékk þó ágæta dóma í Tímanum.

Norðurland var alltaf heimavöllur Póló og sveitin lék mestmegnis þar, markaðurinn var því lítill og e.t.v. var komin þreyta í mannskapinn vegna þess haustið 1969 þegar hún hætti. Þá var enn ein smáskífan væntanleg með sveitinni en útgáfa hennar dróst og kom hún ekki út fyrr en sumarið eftir, 1970 – löngu eftir að Póló hætti.

Sú plata var tveggja laga og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Vísi, og sæmilega í Vikunni. Annað laganna var Í hjónasæng og heyrist það öðru hverju spilað í útvarpi en lagið er eftir Birgi Marinósson, sem segja má að hafi verið eins konar hirðskáld Póló en hann samdi einnig lagið Glókollur, og reyndar fleiri lög og texta sem sveitin gaf út.

Alls komu því út fjórtán lög með hljómsveitinni Póló frá Akureyri og einhver þeirra hafa komið út á safnplötum s.s. Aftur til fortíðar 60-70 I / II (1990), Svona var 1967 / 1968 (2008), Strákarnir okkar, Óskastundin 3 (2004) og Í sól og sumaryl (1995).

Efni á plötum