
Blome
Hljómsveitin Blome birtist jafn snögglega og hún hvarf skömmu síðar en sveitin sendi frá sér eina plötu sem vakti nokkra athygli.
Blome birtist með tilbúna plötu haustið 1995 sem þeir höfðu tekið upp fyrr á árinu en sveitin hafði þá verið til frá því 1992 án þess að koma fram. Meðlimir sveitarinnar voru Ívar Páll Jónsson söngvari, hljómborðs- og gítarleikari, Grétar Már Ólafsson bassaleikari, Hólmsteinn Ingi Halldórsson trommuleikari og Pétur Þór Sigurðsson gítarleikari. Einhverjar mannabreytingar höfðu reyndar verið í sveitinni en kjarni hennar hafði þó starfað í henni frá upphafi.
Platan sem fékk titilinn The third twin var þrettán laga og gáfu þeir félagar plötuna út sjálfir, þeir tileinkuðu hana minningu Fróða Finnssonar gítarleikara Sororicide sem hafði látist úr krabbameini árið á undan. The third twin fékk ágæta dóma í blöðunum, þokkalega í Degi og góða í Morgunblaðinu og DV.
Blome fylgdi plötunni eftir með útgáfutónleikum en síðan heyrðist varla bofs frá sveitinni svo líklegt hlýtur að teljast að sveitin hafi hætt störfum fljótlega eftir það. Ívar Páll, Hólmsteinn Ingi og Grétar Már birtust skömmu síðar í hljómsveitinni Sameiningartákni þjóðarinnar.