Bob Magnusson group (1980)

Bob Magnusson

Bob Magnusson group var ekki starfandi sveit en var sett saman fyrir afmælishátíð Jazzvakningar haustið 1980 þar sem hún hélt tónleika sem voru teknir upp og síðar gefnir út á plötu.

Jazzvakning hélt upp á fimm ára afmæli sitt m.a. með því að bjóða hingað til lands bandaríska bassaleikaranum Bob Magnusson (Robert Magnusson f. 1947) sem, eins og nafnið gefur til kynna er af íslenskum ættum en amma hans var íslensk og flutti til Vesturheims á nítjándu öld.

Það þótti heilmikill fengur að fá Bob Magnusson til Íslands því hann var þá kominn í fremstu röð bassaleikara í Bandaríkjunum og hafði þá nýlega sent frá sína fyrstu sólóplötu en annars leikið með mörgum af þekktustu djasstónlistarmönnum álfunnar. Það hjálpaði til að hann var áhugasamur um að heimsækja land forfeðra sinna og kom hingað ásamt fjölskyldu sinni.

Hljómsveit með nokkrum af fremstu djassspilurum þjóðarinnar var sett saman í því skyni að leika með bassaleikaranum og voru það þeir Viðar Alfreðsson trompetleikari, Guðmundur Ingólfsson píanóleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari og Rúnar Georgsson saxófónleikari sem fengu þann heiður að leika með honum undir nafninu Bob Magnusson group á þrennum tónleikum í Átthagasal Hótel Sögu, sem voru hljóðritaðir og síðan gefnir út af Jazzvakningu árið eftir. Platan hafði að geyma fimm lög frá tónleikunum og skiptust í efni eftir Bob sjálfan og síðan íslensk þjóðlög í útsetningum Gunnars Reynis Sveinssonar.

Bob Magnusson group

Platan fékk titilinn Jazzvaka og þótti mikill hvalreki í hugum djassunnenda en hún fékk góða dóma í Helgarpóstinum og tímaritinu TT. Jazzvaka varð líklega fljótlega uppseld og því eftirsóttur gripur í augum safnara en hún var í mörg ár ófáanleg þar til Jazzvakning endurútgaf hana ásamt fyrstu plötu Guðmundar Ingólfssonar, Nafnakalli (1982) og plötu Viðars Alfreðssonar, Spilar og spilar: Plays and plays (1980) á tvöfaldri plötu árið 2001 undir nafninu Jazzvaka Guðmundar og Viðars. Á þeirri endurútgáfu voru þrjú aukalög af upprunalegu plötunni með Bob Magnusson group.

Efni á plötum