Bobby Harrison (1939-2022)

Bobby Harrison

Breski tónlistarmaðurinn Bobby Harrison (f. 1939) bjó hér og starfaði um nokkurra ára skeið, og setti heilmikinn svip á íslenskt tónlistarlíf með einum og öðrum hætti.

Bobby Harrison (Robert Leslie Harrison) hafði ætlað sér að verða atvinnumaður í knattspyrnu en þegar hann þríbrotnaði á hendi lagði hann íþróttir á hilluna en styrkti handlegginn með trommuleik. Hann lék m.a. með hljómsveitinni Procol Harum sem þekktust er fyrir lög eins og A whiter shade of pale og Homburg en síðar með sveitum eins og Freedom og SNAFU. Hann hafði verið búsettur í Bandaríkjunum í um tvö ár þegar hann kom hingað til lands sumarið 1980.

Hér lét hann fljótlega að sér kveða á tónlistarsviðinu þær vikur sem hann var hér fyrst, tróð þá upp með Jónasi Þóri píanóleikara á Skálafelli á Hótel Sögu en fljótlega bættust fleiri í hópinn og þá tók blúsinn við. Þá stofnaði hann blúskvartettinn ASIA og með þeirri sveit fór hann í stutta ferð til Bretlands þar sem þeir léku í útvarpsþætti ytra.

Þetta sama haust kynntist hann félögunum í Mezzoforte sem þá voru að vinna að sinni annarri plötu, Í hakanum en Harrison kom lítillega við sögu á þeirri plötu.

Harrison var hér um veturinn og var nokkuð áberandi í blússenunni, hann hafði kynnst íslenskri konu og þau fluttu til Bretlands sumarið 1981 en tveimur árum síðar (1983) komu þau aftur til Íslands og settust að hér.

Veturinn 1983-84 skemmti hann reglulega í Þórscafé og þá fór hann að vinna að og taka upp tónlist ásamt Stefáni S. Stefánssyni og átti hún eftir að koma út síðar.

Harrison varð nokkuð þekktur og gerðu fjölmiðlar nokkuð úr því að þessi tengdasonur Íslands hefði verið í Procol Harum og komið að laginu A whiter shade of pale, hann var því nokkuð áberandi og tróð m.a. upp á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga um sumarið 1984. Um svipað leyti stofnaði hann hljómsveitina Pöbb-bandið Rockola sem spilaði flest kvöld vikunnar á Pöbb-num við Hverfisgötu, og um haustið sendi sú sveit frá sér fjögurra laga jólaplötu, Jólasöngva.

Bobby Harrison

Snemma árs 1985 stofnaði Harrison enn eina hljómsveitina, blússveitina Black cat bone en hún varð skammlíf og starfaði aðeins í nokkra mánuði. Önnur sveit, skipuð þeim sem léku á upptökunum með Harrison og Stefáni S. Stefánssyni, fór hins vegar á fullt en hlaut ekki nafn fyrr en síðar, kallaðist þá ýmist Bobby‘s blues band, B.H. blues band eða Blues band Bobby Harrison. Sveitin spilaði víða þetta ár en einnig lék Harrison á trommur á plötu ungs Reykvíkings, Sverris Stormskers sem var þá að senda frá sér sína fyrstu plötu, Hitt er annað mál.

Upptökurnar með Stefáni komu loks út 1986 á fjögurra laga plötu undir nafninu Ísbrot en plötuna gaf Harrison sjálfur út undir eigin nafni. Hún fékk ágæta dóma í Helgarpóstinum.

Bobby Harrison var alltaf á fullu í spilamennsku um allan bæ, árið 1987 starfrækti hann að auki tvö tríó auk annarra sveita. Þetta ár var hann þó mest áberandi í innflutningi á þekktum tónlistarmönnum, stofnaði þá fyrirtækið Split við annan mann og hélt tónleika með hljómsveitum eins og Europe, Aha, Meat loaf og Cock Robin, og síðan Boy George ári síðar. Þeir félagar voru einnig með fyrirætlanir um að flytja inn stórstjörnur eins og Elton John, Billy Idol, U2 og Billy Joel en þegar aðsóknin hrundi þótti þeim ljóst að það gengi ekki og þeir splittuðu fyrirtækinu.

Bobby‘s blues band fór á fullt skrið um haustið 1987, skipað m.a. Mezzoforte-liðum og þeir léku nú inn á nýja plötu Harrison, sem ýmist var sögð vera sólóplata eða með hljómsveitinni Solid silver, sem var þá annað nafn á sveitinni. Platan hlaut sama titil, Solid silver, og kom út fyrir jólin 1987. Henni var fylgt eftir á nýju ári en þá voru þeir Mezzoforte menn líklega komnir í önnur verkefni og annar mannskapur fylgdi Harrison í tónleikahaldi undir nafninu Bobby‘s blues band / Solid silver.

Minna fór fyrir Bobby Harrison árið 1989, hann kom eitthvað fram sem gestur með Vinum Dóra og starfrækti skammlífar blússveitir og árið 1990 flutti hann til Bretlands. Hann var með annan fótinn hér 1992 til 93 en eftir það spurðist lítið til hans. Hann lést snemma árs 2022, á áttugasta og þriðja aldursári.

Solid silver plata Bobby Harrisons var endurútgefin á geisladiski árið 1997 með fjórum aukalögum, lögunum sem höfðu verið á smáskífunni Ísbrot.

Aðrar plötur Bobby Harrison sem hann hafði gefið út fyrir (og eftir) Íslandsdvölina eru ekki til umfjöllunar hér.

Efni á plötum