Bobby’s blues band (1985-88)

Bobby’s blues band

Trommuleikarinn Bobby Harrison starfrækti blúsband hér á landi um tíma með hléum á síðari hluta níunda áratugarins, undir nafninu Bobby‘s blues band (og einnig stundum Blues band Bobby Harrison / B.H. blues band / Solid silver).

Sveitin mun hafa byrjað um mitt árið 1985 og voru þá Björn Thoroddsen gítarleikari, Gunnlaugur Briem trommuleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari og Stefán S. Stefánsson saxófónleikari með Harrison í henni, sveitin hlaut þó ekki nafn sitt fyrr en síðar.

Sumarið 1987 léku með honum Mezzoforte-liðarnir Gunnlaugur Briem trommuleikari, Friðrik Karlsson gítarleikari og Jóhann Ásmundsson bassaleikari, auk þess sem Guðmundur Ingólfsson lék á píanó – sjálfur hefur Bobby Harrison þá væntanlega séð um sönginn. Þessi útgáfa sveitarinnar hætti sama haust.

Þriðja útgáfa sveitarinnar leit dagins ljós haustið 1988 og lék þá í einhvern tíma, fyrir liggur að Guðmundur Pétursson gítarleikari (þá bráðungur) lék með sveitinni sem þá var kvartett en engar upplýsingar er að finna um bassa- og hljómborðsleikara.