Borgardætur (1993-)

Borgardætur

Söngtríóið Borgardætur hafa skemmt landsmönnum allt frá árinu 1993 þótt þær hafi ekki starfað samfleytt síðan þá, þær hafa sent frá sér þrjár plötur.

Hugmyndin að Borgardætrum mun hafa komið frá Andreu Gylfadóttur söngkonu sem þá hafði gert garðinn frægan með Grafík og Todmobile en hana langaði til að prófa þríradda söng í anda Andrews systra. Hún orðaði hugmynd sína við Berglindi Björk Jónasdóttur sem var minna þekkt en hafði sungið með Draumasveitinni og Saga Class auk þess að hafa ljáð ýmsum tónlistarmönnum rödd sína á plötur, sem tók vel í hana og þær fengu síðan þriðju söngkonuna, Ellen Kristjánsdóttur með sér sem hafði þá komið víða við í tónlistinni, sungið með Ljósunum í bænum, Mannakornum og fleirum. Nafnið Borgardætur varð fyrir valinu og eiginmaður Ellenar, Eyþór Gunnarsson sá frá upphafi um útsetningar og söngstjórn en lagavalið var fyrst og fremst stríðsáratónlist og flutt á ensku.

Upphaflega stóð til að þær stöllur kæmu aðeins einu sinni fram með söngdagskrá sína á Hótel Borg á sumardaginn fyrsta vorið 1993, sú dagskrá var í tilefni af því að nýbúið var að setja Hótel Borg í upprunalegt form og átti dagskráin að fanga þá stemmingu sem hafði ríkt í húsinu mörgum áratugum fyrr. Hljómsveit sem kölluð var Setuliðið var sett saman í tilefni af skemmtuninni og átti hún eftir að fylgja Borgardætrum margoft í kjölfarið.

Dagskráin á Hótel Borg fékk fádæma viðtökur og Borgardætrum var ekki stætt á öðru en að endurtaka skemmtun sína, viku síðar var tilkynnt um þrjár aukasýningar sem slógu einnig í gegn og því héldu þær áfram að koma fram með söngdagskrá sína víðs vegar um borgina og síðar einnig úti á landi.

Andrea var mjög upptekin þetta sumar (1993) enda var hljómsveit hennar, Todmobile vant við látin við spilamennsku á tónleikum og dansleikjum. Um haustið létu þær Borgardætur meira að sér kveða og komu þá fram ýmist bara með píanóleikara eða lítilli hljómsveit, m.a. við vígslu Ingólfstorgs, þeir Kjartan Valdemarsson, Pálmi J. Sigurhjartarson, Eyþór Gunnarsson, Björgvin Ploder og Þórður Högnason voru meðal þeirra sem léku undir söng þeirra.

Borgardætur 1994

Þær gáfu sér um það leyti tíma til að hljóðrita efni á heila plötu um haustið en það tók aðeins fjóra daga. Sú plata kom út fyrir jólin (1993) og bar heitið „Svo sannarlega“, Skífan gaf út.

Lögin á plötunni voru tólf talsins og erlend að uppruna en með íslenskum textum sem flestir voru eftir Einar Thoroddsen og Þórarin Eldjárn. Þrátt fyrir að platan kæmu út örfáum dögum fyrir jólin hafði hún selst í um tvö þúsund og fimm hundruð eintökum um áramótin, hún hlaut ennfremur prýðilegar viðtökur poppskríbenta, fékk góða dóma í Morgunblaðinu og DV. Borgardætur þóttu sýna afburða sönghæfileika og textarnir hittu í mark að mati þeirra.  Þær sungu víða í kringum útgáfu plötunnar um jólin 1993 og svo áfram fram á næsta ár uns smám saman hægðist á þeim.

Sumarið 1994 fóru Borgardætur í samstarf með Sniglabandinu og gáfu út lagið Apríkósusalsa sem kom út á safnplötunni Já takk, það lag hefur ekki komið annars staðar út. Lagið sló í gegn og hópurinn túraði saman um sumarið á sveitaböllum, Sniglabandið spiluðu undir söng Borgardætra og Borgardætur rödduðu síðan með Sniglabandinu á eftir. Samstarfið hélt áfram fram að áramótum (með hléum) en einnig lék hljómsveit sem kallaðist Borgarsynir stundum með Borgardætrum.

Það var á þessum tíma sem Borgardætur voru hvað virkastar, eftir nokkurra vikna pásu voru þær mættar aftur með söngdagskrá ásamt Setuliðinu í febrúar 1995 og héldu reglulega tónleika mest allt það ár þrátt fyrir að Andrea væri nú í hljómsveitinni Tweety sem hafði verið stofnuð á ársbyrjun 1994, þær komu m.a. fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.

Síðsumars tóku Borgardætur sér nokkurra vikna pásu frá sviðsljósinu til að vinna við og taka upp væntanlega plötu. Sú plata kom út á vegum Spor fyrir jólin 1995 undir nafninu Bitte nú. Eins og fyrri platan fékk sú nýja prýðilega dóma, mjög góða í Morgunblaðinu og Tímanum og ágæta einnig í DV. Forskriftin var sú sama, erlend lög við íslenska texta sem Friðrik Erlingsson átti flesta.

Borgardætur

Eftir áramótin 1995-96 fóru Borgardætur af stað með skemmtidagskrána Bitte nú á Hótel Sögu og gekk sú sýning fram á vorið, um sumarið og haustið komu þær stopulla fram en þá fóru þær í langt frí, hið lengsta sem þær hafa tekið.

Það var í raun ekki fyrr en um haustið 1999 sem tríóið birtist aftur en í desember komu þær fram með jóladagskrá, hina fyrstu sinnar tegundar. Þá voru þær farnar að huga að útgáfu jólaplötu og var þetta liður í þeim undirbúningi. Lengra leið nú á milli þess sem Borgardætur komu fram en þess í stað birtust þær meira á plötum annarra listamanna. Sumarið 2000 sungu þær t.a.m. á plötunni Dans stöðumælanna sem hafði að geyma lög Ingva Þórs Kormákssonar og um haustið komu þær við sögu á plötu sem gefin var út til heiðurs Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu. Þar sungu þær lagið Út í Eyjum.

Það sama haust sungu Borgardætur á skemmtunum á Kringlukránni og hituðu þar með upp fyrir fyrirhugaða jólaplötu sem kom út fyrir jólin 2000. Eiginlegir útgáfutónleikar voru svo í formi jólatónleika í Borgarleikhúsinu en einnig héldu þær jólatónleika á Gauknum, Salnum og víðar. Platan, Jólaplatan gefin út af Skífunni fékk almennt mjög góða dóma, t.d. í Morgunblaðinu og DV.

Borgardætur voru áfram með söngdagskrá á Kringlukránni fram eftir vetri en að öðru leyti létu þær lítið fara fyrir sér og hafa í raun gert það síðan. Þær hafa þó reglulega komið fram með jólatónleika, líklega nánast á hverju ári síðan, sem og stöku sinnum á blús- og djasshátíðum. Þá voru þær með afmælistónleika árin 2003 og 2013 í tilefni af tíu og tuttugu ára starfsafmæli sínu.

Borgardætur hafa einnig komið fram við hátíðleg tækifæri, s.s. verið meðal Jólagesta Björgvins Halldórssonar, sungið á minningartónleikum um Elly Vilhjálms, á tónleikum með Stuðmönnum og Ragnari Bjarnasyni svo dæmi séu nefnd, og hafa sungið inn á plötur tengdar þeim verkefnum og öðrum. Óður til Ellyjar með Guðrúnu Gunnarsdóttur (2003), Á stóra sviðinu: Þjóðleikhúsið 1. og 2. október 2002 með Stuðmönnum (2002), Vertu ekki að horfa: Afmælisútgáfa með Ragnari Bjarnasyni (2004) og Ó borg mín borg…: Átján Reykjavíkurlög (1998) eru dæmi um slíkar útgáfur. Þá hafa lög þeirra komið út á nokkrum safnplötum s.s. Halló halló halló (2003), Heyrðu aftur ´93 (1993), Next: jóladiskurinn 2004 (2004), Svalasmellir (1995) og Á hátíðarvegum (2000).

Efni á plötum