Venus [5] (1993-2005)

Hljómsveit sem bar nafnið Venus starfaði á Rifi á Snæfellsnesi um ríflega áratugar skeið í kringum síðustu aldamót og lék einkum á dansleikjum á heimaslóðum.

Venus var stofnuð haustið 1993 en stofnmeðlimir hennar voru nokkrir vinnufélagar sem störfuðu við beitningar á Rifi, aðeins einn þeirra hafði þá reynslu af spilamennsku í hljómsveitum en það var gítarleikarinn Ægir Þórðarson (Útrás, Bárðarbúðarböðlarnir, Extra o.fl.), aðrir meðlimir voru Kristinn Sigurþórsson trommuleikari, Kristjón Grétarsson söngvari og gítarleikari, og Hallgrímur Jónasson bassaleikari. Jóhann Rúnar Ívarsson hljómborðsleikari bættist svo síðar í hópinn.

Venus hóf ballspilamennsku í félagsheimilinu Röst á Hellissandi þar sem þeir félagar deildu spilamennsku með hljómsveitinni Bros og í framhaldinu lék sveitin á fjölda dansleikja á Nesinu næstu árin.

Venus starfaði eitthvað fram yfir áramót 2004-05 en hætti þá störfum.