Melódíur minninganna [tónlistartengdur staður] (2000-)

Melódíur minninganna á Bíldudal

Á Bíldudal hefur um árabil verið rekið tónlistarsafn undir yfirskriftinni Melódíur minninganna en upphafsmaður þess er söngvarinn Jón Kr. Ólafsson sem hefur alinn manninn alla sína tíð í þorpinu.

Jón Kr. Ólafsson hafði til langs tíma sankað að sér ýmsum munum tengdum þekktustu dægurlagasöngvurum íslenskrar tónlistarsögu s.s. Vilhjálmi og Elly Vilhjálms, Helenu Eyjólfsdóttur, Ragnari Bjarnasyni og Hauki Morthens, um var að ræða myndir, plötur og plötuumslög, fatnað og annað sem hann vildi láta verða af að setja á stofn tónlistarsafn utan um, í heimabæ sínum. Safnið opnaði á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní 2000 en dagurinn var einmitt afmælisdagur Svavars Gests sem hafði komið Jóni á framfæri með hljómsveitinni Facon árið 1969 þegar hann gaf út plötu sveitarinnar, og var dagsetningin einmitt valin með tilliti til þess.

Þrátt fyrir að safn Jóns Kr. sé langt frá því að vera í alfaraleið hefur aðsókn verið þokkaleg frá upphafi en það er löngu orðið þekkt sem eitt sérstæðasta safn landsins og þótt víðar væri leitað enda endurspeglar það jafnframt litríkan persónuleika hans.

Jón Kr. Ólafsson

Melódíur minninganna hefur nær eingöngu verið rekið af hugsjón Jóns Kr. og hann hefur sjaldan hlotið neina opinbera styrki frá ríki eða sveitarfélagi, velgerðamenn hafa þó haldið styrktartónleika stöku sinnum svo starfsemi safnsins geti haldið áfram, fátt virðist geta stöðvað Jón Kr. í þessu hugsjónastarfi og stækkar safnið jafnt og þétt. Það er til húsa á neðri hæð heimilis hans, húsinu Reynimel sem staðsett er við Tjarnarbraut 5 á Bíldudal, þar er opið flesta daga ársins eða eftir samkomulagi.

Þótt Melódíur minninganna hafi í upphafi að mestu verið helgað tónlistarfólki sjötta og sjöunda áratugarins hafa yngri tónlistarmenn smám saman áttað sig á gildi safnsins, heimsótt hann og komið færandi hendi með ýmsa muni tengda sínum tónlistarferli. Þ.a.l. hefur safnið fyrir löngu síðan sprengt utan af sér húsið og var það auglýst til sölu fyrr á öldinni, m.a. svo finna mætti því stærra húsnæði.