Kvöld (handa hungruðum heimi)

Kvöld (handa hungruðum heimi)
Lag og texti Hörður Torfason

Augu þín svo unaðs tær sindra eins og stjörnur tvær,
ég vildi mega færa þér rjóma, fisk og íslenskt smér.
Undir sama himni og þér býr svo margt í góðri trú
suss og bí og æ og ó, alin brandur og dillumdó.

Ef þig dreymir dulan mín dáinn fisk og álfagrín,
máttu skreiðast í mitt ból og kúra þar fram yfir næstu jól.
Þar við getum hverja nótt í sömu rekkjudrauma sótt,
þar færi ég þér berjalyng og fegurst öll þér lög mín syng.

Æðrastu ekki efni er nóg, ég skal færa þér hljóðan skóg,
bláa myrru og bleika síld. Blandað sykri og nægri hvíld.
Viltu heyra lítið ljóð, ljúft og sælt um góða þjóð?
Eða sögu um lítið tröll sem leystist upp og varð að mjöll?

Við rakið getum ótal spor við kertaljós langt fram á vor,
nú úti geisa veður köld. Við skulum sofna snemma í kvöld.

[af plötunni Hörður Torfason – Hugflæði]