Model (1987-88)

Model í Eurovision gírnum

Hljómsveitin Model var skammlíft afsprengi Mezzoforte en naut mikilla vinsælda þann stutta tíma sem hún starfaði þrátt fyrir að hún væri ekki allra.

Model var sett saman í kjölfar þess að Mezzoforte liðarnir Friðrik Karlsson gítarleikari og Gunnlaugur Briem trommuleikari sendu í félagi við Birgi Bragason lagið Lífið er lag í undankeppni Eurovision vorið 1987, sem komst þar í úrslit. Þeir félagar ákváðu að fá til liðs við sig Eirík Haukssson söngvara og söngkonurnar Ernu Þórarinsdóttur og Evu Ásrúnu Albertsdóttur sem höfðu gert garðinn frægan með Brunaliðinu nokkrum árum fyrr, auk Eddu Borg Ólafsdóttur hljómborðsleikara sem einnig söng. Framlag Model þótti ferskt og hressandi og ljóst þótti að það myndi berjast um að komast til Belgíu sem framlag Íslendinga í Eurovision það vorið en stemmingin fyrir keppninni var heilmikil enda var þetta einungis í annað skiptið sem Íslendingar tóku þátt, Eiríkur Hauksson hafði einmitt verið í Icy-hópnum sem keppti í Noregi vorið á undan.

Lífið er lag hafnaði síðan í öðru sæti undankeppninnar á eftir Hægt og hljótt (e. Valgeir Guðjónsson) í flutningi Höllu Margrétar Árnadóttur og voru margir á því að það ætti þar miklu fremur heima en lag Valgeirs. Strax í kjölfar keppninnar kom út smáskífa á vegum Steina og ýtti það enn undir vinsældir lagsins sem fór strax í fyrstu viku í annað sæti vinsældarlista Rásar 2 og viku síðar í toppsætið þar sem það sat næstu vikurnar rétt eins og á vinsældalista Bylgjunnar, þar til að nær dró Eurovision keppninni í Belgíu en þá sló Halla Margrét laginu við. Smáskífan af Lífið er lag sem innihélt tvær útgáfur af laginu, sungnu og ósungnu, fékk ágæta dóma í DV.

Lífið er lag fór fljótlega á samnefnda safnplötu sem Steinar gáfu út og ekki löngu síðar var greint frá því að sveitin myndi senda frá sér breiðskífu um haustið fyrir jólaplötuflóðið. Það hafði aldrei verið ætlunin af hálfu Model að starfa eftir keppnina en í kjölfar vinsælda lagsins og pressu frá Steinari Berg plötuútgefanda létu þau til leiðast.

Model kom aldrei fram opinberlega um vorið og sumarið í tengslum við undankeppnina og reyndar var sveitin ekkert starfandi, það var þó ljóst að þau þyrftu að fylgja plötunni um haustið eitthvað eftir og að sveitin myndi þá spila á tónleikum eða dansleikjum.

Eðlilega lá Model í salti fram til hausts enda voru meðlimir sveitarinnar þá að sinna öðrum verkefnum s.s. eins og Mezzoforte, en um haustið kom breiðskífa sveitarinnar út og bar nafn hennar. Tónlistin var að mestu eftir þá Friðrik, Gunnlaug og Eirík en athygli vakti að Edda hljómborðsleikari kom hvergi við sögu í hljóðfæraleiknum á plötunni og varð það mörgum tilefni til að ætla að stúlkurnar þrjár væru þar eingöngu til að vera sætar og syngja bakraddir. Hins vegar kom hljómborðsleikarinn Don Snow við sögu á henni sem og Mezzoforte-liðarnir Eyþór Gunnarsson og Jóhann Ásmundsson þannig að segja mætti að um nokkurs konar Mezzoforte plötu væri að ræða.

Model

En Model fór á fullt í spilamennsku í nokkrar vikur í kringum útgáfu plötunnar, spilaði fyrst opinberlega þann 4. desember, sveitin kom einnig fram í þættinum Á tali með Hemma Gunn, auk þess að leika á fáeinum dansleikjum á skemmtistaðnum Evrópu og víðar fram undir lok janúar 1988.

Lífið er lag var auðvitað á plötunni, þó í nýrri útsetningu en einnig var þar að finna stórsmellinn Ástarbréf merkt X sem sló í gegn og naut mikilla vinsælda, Hvers virði og Svart og hvítt sem einnig voru nokkuð spiluð í útvarpi. Alls voru níu lög á plötunni sem fékk annars þokkalega dóma í DV en afar slaka í Morgunblaðinu. Platan kom út á vínyplötu-, kassettu- og geisladiskaformi eins og þá var títt um plötuútgáfu.

Platan seldist vel og eftir tvær vikur var salan komin í um tvö þúsund eintök, fáeinum vikum síðar fékk sveitin síðan afhenda gullplötu fyrir þrjú þúsund seld eintök en þá hafði gullplötumarkið nýlega verið lækkað úr fimm þúsund og niður í þrjú þúsund eintök.

Þannig séð var sögu Model lokið um mánaðamót janúar febrúar þegar sveitin hafði spilað í hinsta sinni en Steinar plötuútgefandi reyndi að halda lífi í vinsældum hennar með því að hafa lagið Hvers virði á safnplötunni Þú og þeir og allir hinir nema einn, sem kom út í lok mars í tengslum við undankeppni Eurovision 1988, e.t.v. má rekja vinsældir lagsins til þess.

Segja má því að Model hafi í raun lifað fyrir augnablikið og fljótlega hvarf sveitin undir rykið, besti mælikvarðinn á það má líkast til sjá best í barnablöðunum Æskunni og ABC þar sem ungir lesendur auglýstu myndir og veggspjöld af sveitinni í skiptum fyrir eitthvað nýrra. Lífið er lag og Ástarbréf merkt X hafa lifað ágætu lífi á safnplötum og teljast klassískar lagasmíðar í íslenskri tónlistarsögu í dag, sem hlýtur að teljast býsna gott þar sem sveitin starfaði í raun einungis í fáeinar vikur.

Þess má geta að nokkrum árum síðar sendi Edda Borg frá sér lag á safnplötu þar sem hún naut aðstoðar fyrrum félaga sinna í Model, nafn sveitarinnar kemur þó þar auðvitað hvergi nærri.

Efni á plötum