Sturlungar [2] (1979-83)

Sturlungar

Hljómsveitin Sturlungar var nokkurs konar systurhljómsveit Mezzoforte um tíma en heimildir eru nokkuð mismunandi um hversu lengi sveitin starfaði, hún mun hafa tekið til starfa árið 1979 en er ýmist sögð hafa starfað til 1980 eða jafnvel til 1983.

Meðlimir Sturlunga voru þeir Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari, Friðrik Karlsson gítarleikari, Gunnlaugur Briem trommuleikari, Björn Thorarensen hljómborðsleikari, Jóhann Ásmundsson bassaleikari og Guðmundur Torfason söngvari. Eins og sjá má af þessari upptalningu er hér í raun um Mezzoforte að ræða fyrir utan Guðmund en hann átti síðar eftir að hasla sér völl á fótboltasviðinu, m.a. sem atvinnumaður í íþróttinni.

Sturlungar voru um tíma húshljómsveit í Klúbbnum og þar söng Ellen Kristjánsdóttir stundum með sveitinni, með hana innanborðs mun sveitin einnig hafa gengið undir nafninu Norðurljós.