Olympia (1994-95)

Sigurjón Kjartansson / Olympia

Olympia var eins manns hljómsveit Sigurjóns Kjartanssonar sem hann starfrækti um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, tvær plötur komu út með sveitinni.

Tónlist Olympiu var eins konar synfónískt syntharokk keyrt áfram af drungalegum söng Sigurjóns sem þarna hafði m.a. starfað með hljómsveitunum Ham og Funkstrasse, hann hóf að koma fram opinberlega undir þessu nafni snemma sumars 1994, og fljótlega var hann einn af þeim sem hitaði upp fyrir bresku sveitina St. Etienne á tónleikum í Kolaportinu á Listahátíð.

Í kjölfarið kom út lagið Hvert sem er á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld og Olympia spilaði á fjölmörgum tónleikum um sumarið og haustið. Sigurjón sendi frá sér tíu laga plötu um haustið sem bar titil sveitarinnar en þar voru lögin á ensku ólíkt því sem hafði verið á safnplötunni um sumarið, platan fékk frábæra dóma í Helgarpóstinum og þokkalega í DV. Sigurjón naut aðstoðar fjölmargra við gerð plötunnar og kom t.a.m. faðir hans Kjartan Sigurjónsson organisti fyrir á henni en einnig má nefna söngkonurnar Möggu Stínu og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur sem þó er betur þekkt sem leikkona. Umslag plötunnar vakti nokkra athygli en á því mátti sjá verk Nínu Sæmundsson, Spirit of achivement.

Olympia hélt áfram að leika á tónleikum um veturinn og um vorið 1995 fór Sigurjón í stutta reisu til London þar sem hann spilaði á tónleikum en ætlunin var þó ekkert endilega að herja á alþjóðamarkað, reyndar voru uppi plön um að gefa út plötu í Bandaríkjunum með blöndu laga af útgefnu plötunni og annarri sem þá var rétt að koma út en af því virðist ekki hafa orðið. Platan Universal kom út skömmu síðar eða í júní (aðeins um hálfu ári eftir að fyrri platan kom út) og var hún átta laga. Universal hlaut ekki eins góðar viðtökur og sú fyrri en hún fékk fremur slaka dóma í DV. Það lag á plötunni sem mesta athygli vakti var Madonnu slagarinn Like a prayer.

Olympia starfaði eitthvað áfram um sumarið og fram á haustið og var þá hugsanlega fullmönnuð hljómsveit, sveitin lék líklega síðast á listahátíðinni Unglist en svo lagðist hún í híði um veturinn, birtist aftur í mars 1996 en þá sofnaði Olympia svefninum langa.

Efni á plötum