Gestur Guðmundsson [2] (1951-)

Gestur Guðmundsson

Gestur Guðmundsson félagsfræðiprófessor var einna fyrstur Íslendinga til að fjalla fræðilega um íslenska rokk- og dægurmenningu en hann sendi frá sér Rokksögu Íslands sem hefur síðan verið lykilrit um sögu rokksins til ársins 1990.

Gestur er fæddur 1951, hann lauk BA prófi í félagsfræði við HÍ (1976) og síðan mastersprófi við Kaupmannahafnarháskóla (1981) og doktors-prófi frá sama skóla (1991). Hann hefur einnig stundað margvíslegar samfélagsrannsóknir og birt niðurstöður sínar í alþjóðasamfélagi fræðanna.

Gestur hefur ritað fjöldann allan af greinum um íslenska dægurmenningu en tvær bækur hans rísa hæst um efnið, annars vegar bókin 68 – hugarflug úr viðjum vanans sem hann ritaði ásamt eiginkonu sinni Kristínu Ólafsdóttur og kom út 1987, hins vegar Rokksaga Íslands: frá Sigga Johnny til Sykurmolanna en sú bók kom út 1990 og markar upphaf fræðilegrar umfjöllunar um afmarkaðan hluta íslenskrar tónlistarsögu. Bókin hefur að geyma félagsfræðilega nálgun á efnið og hefur jafnframt að geyma umfjöllun um þekktustu nöfn rokk- og dægurtónlistar á Íslandi frá 1955 til 90, hún þykir merkileg heimild um íslenska tónlist.