Gestur Guðmundsson [1] (1931-2021)

Gestur Guðmundsson

Svarfdælingurinn Gestur Guðmundsson hafði alla möguleika á að skapa sér nafn sem söngvari á sínum tíma en ákvað þess í stað að helga sig öðru, eftir hann liggur ein plata.

Gestur fæddist 1931 og bjó uppvaxtarár sín í Svarfaðardal, fyrst í Gullbringu og síðan Karlsá, hann kom úr stórum systkinahópi en alls voru systkinin þrettán talsins. Mikið var sungið á heimili Gests þegar hann var að alast upp en hann gekk einnig til liðs við lítinn karlakór í Svarfaðardalnum, hugsanlega var þar um að ræða Söngfélagið Sindra sem víðar varð að Karlakór Dalvíkur.

Gestur fór rúmlega tvítugur til náms í rafvirkjun á Akureyri og söng þá um tveggja ára skeið með Karlakór Akureyrar og þar komst hann í fyrsta sinn í eins konar söngkennslu þar sem hann naut leiðsagnar Ingibjargar Steingrímsdóttur en Gestur var tenór. Hann söng stöku sinnum einsöng með Karlakór Akureyrar og kom einnig fram einn á söngskemmtunum á Akureyri, þar kom hann einnig fram með KA-kabarettnum.

Gestur fór suður til Reykjavíkur um miðjan sjötta áratuginn og stundaði þar nám í iðnfræði í Vélskólanum, þar fór hann einnig í söngnám og lærði hjá þeim Guðmundi Jónssyni og Þorsteini Hannessyni auk tónfræði hjá Róbert A. Ottóssyni.  Það var svo árið 1959 sem hann hleypti heimdraganum og hélt til Þýskalands til að læra tæknifræði, þar var hann einnig í söngnámi samhliða tæknifræðináminu en svo fór að lokum að söngnámið varð ofan á og hann nam óperu- og ljóðasöng, hann var einnig um skamman tíma við nám í Svíþjóð. Í fríum sínum kom Gestur stundum heim til Íslands og þá hélt hann tónleika hér heima, m.a. ásamt píanóleikaranum Guðrúnu A. Kristinsdóttur.

Gesti bauðst ýmis tækifæri til söngs eftir nám en ákvað að fara heim til Íslands og stofna fjölskyldu, hann var alkominn heim árið 1966 og var þá einn vetur á Blönduósi en fluttist síðan til Reykjavíkur, þar söng hann lítillega í óperum og með Einsöngvarakórnum og eitthvað sjálfur á tónleikum en eftir 1970 söng hann lítið opinberlega og hann fluttist aftur norður á Blönduós og hefur búið þar síðan.

Gestur lagði sönginn að mestu á hilluna sem fyrr segir en stjórnaði um tíma Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, m.a. á plötu sem gefin var út 1985 en þar söng Gestur einnig einsöng.

Það var svo árið 2002 að ættingjar Gests gáfu út plötu með söng hans með aðstoð Friðriks Friðrikssonar útibússtjóra Sparisjóðs Svarfdælinga á Dalvík, undir titlinum Liðnar stundir: Gestur Guðmundsson tenór, upptökur frá 1963-2002. Á plötunni var að finna eins og titillinn gefur til kynna upptökur frá ýmsum tímum, m.a. útvarpsupptökur frá 1966 og 1970 og nýlegri upptökur þar sem Kirkjukór Sauðárkrókskirkju söng lög eftir Gest sjálfan undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar.

Gestur lést árið 2021, kominn fast að níræðu.

Efni á plötum