Kossinn

Kossinn
(Lag / texti: engar upplýsingar / Birgir Marinósson)

Það liðast silfurtær lækur
um litfagra hlíð.
Í litla gljúfrinu leikur hann
lögin sín blíð.
Hér er friðhelgi vís,
hér er lífs míns paradís.
Því hér upp við hamragilið
hlaut ég fyrsta kossinn.

Hér undum við lengi við ástir
og unaðarmál.
Svo kyrrlát við sátum á kvöldin
við kærleikans bál.
Heyrðum við úr hamraþröng
hljóma fossins glaða söng.
Hann söng þá alltaf sæluljóðið
sitt um fyrsta kossinn.

Ég kyssti þig, þú kysstir mig,
og kærleiksstjörnur lýstu okkar veg.
Margt sumarkveld við ástareld
við áttum dýrðarstundir, þú og ég.

Nú glampa kvöldsólar geislar.
Nú blunda angandi blómin
við blíðsvalan koss.
Heyri ég úr hamraþröng
hljóma fossins kveðjusöng.
Hann syngur alltaf sorgarlagið
sitt um hinsta kossinn.

[m.a. á plötunni Sextett Jóns Sigurðssonar og Stefán Jónsson – [ep]]