Söngurinn

Söngurinn
(Lag / texti: Bjarni Þorsteinsson / Matthías Jochumsson)

Söngurinn göfgar, hann lyftir í ljóma
lýðanna kvíðandi þraut.
Söngurinn vermir og vorhug og blóma
vegur á köldustu braut.
Söngurinn yngir, við ódáins hljóma
aldir hann bindur um stund,
hisminu breytir í heilaga dóma,
hrjóstrinu í skínandi lund.

Söngurinn harðúð og hjáræmi eyðir,
hófsemi kennir og mát,
stríðólmu kraftana stillir og leiðir
stöðvandi óstjórn og fát.
Söngurinn hrífur til drengskapardáða,
dyggðar og sigurs og hróss.
Söngurinn fjörgar til framkvæmdarráða,
frelsis og hugsjónaljóss.

Fornaldarsöngur með sögunnar draumi
syngur um kvöldroða ljós.
Nútímans hróður með hreimfyllri straumi
hrynur að framtíðarós.
Aldirnar mæta í æskunnar blóði,
ódáins stærandi brag:
Dánir og lifandi andar í óði
efalaust faðmast í dag.

[m.a. á plötunni Þorsteinn Hannesson – Þorsteinn Hannesson tenór]