Glæsir (1979-88)

Glæsir

Hljómsveitin Glæsir var húshljómsveit í Glæsibæ um árabil og hefur sjálfsagt leikið þar í um þúsund skipti þann áratug er sveitin starfaði þar en hún sérhæfði sig í gömlu dönsunum og tónlist fyrir fólk komið á miðjan aldur.

Sveitin var upphaflega tríó sem Gissur Geirsson setti saman í þessu samhengi, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina með Gissuri í byrjun en fljótlega fjölgaði í henni og ekki löngu síðar var Gissur hættur öllum afskiptum af bransanum þannig að hann hefur væntanlega yfirgefið sveitina í kringum 1980.

Afar fáar heimildir er að finna um þessa sveit utan aragrúa auglýsinga frá Glæsibæ en þar finnast engar upplýsingar um skipan sveitarinnar, fyrir ligggur þó að Benedikt Pálsson trommuleikari, Torfi Ólafsson bassaleikari, Júlíus Guðmundsson [?] og Þór Nielsen gítarleikari og söngvari voru í henni um lengri eða skemmri tíma. Af og til komu gestir fram með sveitinni s.s. harmonikkuleikararnir Örvar Kristjánsson og Bragi Hlíðberg, og erlendar gestasöngkonur.

Sveitin spilaði sem fyrr segir mestmegnis í Glæsibæ en hún starfaði eitthvað einnig utan dansstaðarins, s.s. á árshátíðum, þorrablótum og jóladansleikjum og þess háttar samkomum, hún fór einnig með skemmtiprógramm og dansleikjahald undir nafninu Haustfagnaður haustið 1981 ásamt Baldri Brjánssyni og Örvari Kristjánsson út á landsbyggðina og var einnig með svipaða dagskrá í Hellinum við Tryggvagötu.

Hljómsveitir Glæsir starfaði þar til haustið 1988 er hún hætti störfum.